Tilkynnt var um það í morgun að Íslandsbanki hafi verið valinn besti bankinn á Íslandi af alþjóðlega fjármálatímaritinu Euromoney. Þetta er fjórða árið í röð sem tímaritið útnefnir bankann þann besta á Íslandi. Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, segir að þetta sé mikill heiður fyrir bankann og að starfsfólk bankans líti björtum augum á þá tíma sem framundan séu í rekstri hans.
Euromoney er ekki eina alþjóðlega fjármálatímaritið sem velur besta banka á Íslandi. Í desember 2015 var til að mynda greint frá því að Arion banki hefði verið valinn banki ársins á Íslandi af tímaritinu The Banker, sem gefið er úr af Financial Times. Arion endurheimti þar með titilinn frá Íslandsbanka, sem hafði hlotið hann árið 2014. Árið á undan því, 2013, hafði Arion banki nefnilega fengið verðlaunin.
Landsbankinn hefur líka hlotið verðlaun. Á undanförnum árum hefur tímaritið Global Finance Magazine reglulega veitt honum slík fyrir að vera besti banki á Íslandi.
Sækja þarf sérstaklega um að taka þátt í öllum ofangreindum verðlaunum.