Ríkisábyrgð á íslenskum innlánum, sem byggir á yfirlýsingu ríkisstjórnar Íslands sem gefin var út í tengslum við neyðarlagasetninguna 6. október 2008, er óheimil. Undanþága Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) vegna ábyrgðarinnar rann út fyrir 18 mánuðum og hún þar með óheimil samkvæmt reglum Evrópska efnahagssvæðisins (EES), sem Ísland er aðili að. Alls eru innstæðurnar sem ábyrgðin náði til meira en 1.000 milljarðar króna. Frá þessu er greint í Viðskiptablaðinu í dag.
Þegar neyðarlögin voru sett haustið 2008 voru innstæður gerðar að forgangskröfum í slitabú þeirra banka sem féllu í kjölfarið, og lögin náðu til. Samhliða gaf ríkisstjórn Íslands út yfirlýsingu um að allar innstæður á Íslandi væru tryggðar og á grundvelli þeirrar yfirlýsingar voru innlendar innstæður færðar með handafli inn í nýja banka sem stofnaðir voru á grunni hinna föllnu. Í lok síðasta árs voru innstæður um 65 prósent af heildarfjármögnun íslenska bankakerfisins og bankakerfið þar með rekið á ábyrgð skattborgaranna í ljósi fyrri yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar um ábyrgð á öllum innlendum innstæðum. Yfirlýsingin hefur þó aldrei haft neitt lagalegt gildi, heldur byggði á því að stjórnvöld höfðu sýnt það í verki að þau myndu tryggja innstæður ef á það myndi reyna.
Nú er hins vegar langt um liðið frá hruni og sá neyðarréttur sem Íslendingar komust upp með að beita er vart til staðar, né þörf fyrir hann, miðað við aðstæður í dag. Ein af ástæðum þess að hin ólögfesta ábyrgð á innstæðum gekk upp alþjóðlega var undanþága sem ESA veitti íslenskum stjórnvöldum til að haga málum með þessum hætti. Alls fjallaði stofnunin um málið í þremur ákvörðunum sem birtar voru sumarið 2012 og sagði að hún liti svo á að yfirlýsingar stjórnvalda feli í sér lagalega bindandi og óskilyrta ríkisábyrgð, en einnig ríkisaðstoð við íslenska viðskiptabanka. Þannig hafi íslenskir bankar hag af hinni ótakmörkuðu ríkisábyrgð, hún veiti þeim samkeppnisforskot og geri þeim kleift að krefjast lægri vaxta á innstæður. Þrátt fyrir fjármagnshöft séu íslenskir bankar, að minnsta kosti að einhverju leyti, í samkeppni við erlenda banka.
Viðskiptablaðið greinir frá því í dag að heimild sem ESA veitti fyrir ábyrgðinni hafi verið bundin því að íslensk stjórnvöld hefðu þurft að draga hana til baka eins fljótt og auðið er. ESA úrskurðaði síðan að ríkisábyrgðin væri heimild til ársloka 2014. Í svari við fyrirspurn Viðskiptablaðsins segir ESA að umrædd heimild fyrir ríkisábyrgð á innstæðum hafi hvorki verið framlengd né endurnýjuð síðan. Þá hafi íslensk stjórnvöld ekki óskað eftir framlengingu hennar. Í ríkisreikningi íslenska ríkisins fyrir árið 2015, og í greinargerð með fjárlagafrumvarpi 2016, kemur hins vegar fram að ríkið telji ábyrgðina vera í fullu gildi.
Í dag á ríkið Landsbankann nánast að öllu leyti, allt hlutafé í Íslandsbanka og 13 prósent hlut í Arion banka. Ríkið er eigandi að um 80 prósent af allri grunn fjármálaþjónustu landsins.