Á fyrsta fundi Þjóðhagsráðs, sem haldinn var fyrir mánuði síðan, sagði Már Guðmundsson seðlabankastjóri að engum væri greiði gerður með því að vextir á Íslandi yrðu lækkaðir án þess að innstæða væri fyrir því. Hægt væri að lækka vexti hérlendis ef verðbólguvæntingar væru í takti við verðbólgumarkmið, en svo er ekki sem stendur. Því þurfi að sýna þolinmæði. Þetta kemur fram í fundargerð vegna fyrsta fundar Þjóðhagsráðs, sem gerð var opinber í dag.
Stýrivextir á Íslandi eru 5,75 prósent. Í flestum löndum sem Ísland miðar sig við eru þeir í kringum núll. Í maí greindi Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands frá því að líkur séu á að vextir hækki þegar líður á árið vegna væntinga um aukna verðbólgu.
Ræddu um hvenær vextir gætu lækkað
Í fundargerð Þjóðhagsráðs segir að á fundi ráðsins hafi verið rætt um við hvaða aðstæður vextir gætu lækkað hérlendis og nefnt var að bit vaxtatækisins væri minna en af væri látið vegna verðtryggingar. Már sagði að vextir hér á landi gætu lækkað ef verðbólguvæntingar væru í takti við verðbólgumarkmið „eins og í flestum iðnríkjum og ef vinnumarkaður og ríkisfjármál styddu peningastefnuna. Það breytti því þó ekki að hér væru töluvert aðrar aðstæður en annars staðar; hagvöxtur væri kröftugur, spenna hefði myndast í þjóðarbúskapnum og full atvinna hefði náðst. Taldi hann nauðsynlegt að sýna þolinmæði, margt gengi mjög vel og mikilvægar breytingar væru að koma til framkvæmda. Engum væri greiði gerður með því að lækka vexti án þess að innstæða væri fyrir því."
Varaði við auknum vaxtamunaviðskiptum
Á fundinum sagði Már einnig að áskoranir sem peningastefnan á Íslandi stæði frammi fyrir væru miklar og að losun fjármagnshafta væri ein þeirra og vextir væru líka mun hærri hér en víðar hvar annars staðar. Már sagði að vaxtamunurinn á milli Íslands og annarra landa „skapa hættu á fjármagnsinnstreymi á grundvelli svokallaðra vaxtamunarviðskipta, en slíkt inmnstreymi hefði truflað miðlum peningastefnunnar í gegnum vexti á seinni helmingi síðasta árs“. Már bætti þó við að nýtt fjárstreymistæki, sem Seðlabankinn kynnti til leiks í byrjun júnímánaðar, ætti að geta haft „áhrif á samsetningu fjármagnsflæðis til og frá landinu og þannig væri betur hægt að beita vöxtunum til að dempa eftirspurn ef á þyrfti að halda“.
Á árunum fyrir hrun flæddu erlendir peningar inn í íslenska hagkerfið í svokölluðum vaxtamunaviðskiptum. Í einföldu máli snúast þau um að erlendir fjárfestar tóku lán í myntum þar sem vextir voru lágir og keyptu síðan íslensk skuldabréf, vegna þess að vextir á þeim eru háir í öllum alþjóðlegum samanburði. Því gátu fjárfestarnir hagnast vel umfram þann kostnað sem þeir báru af lántöku sinnar. Og ef þeir voru að gera viðskipti með eigin fé þá gátu þeir auðvitað hagnast enn meira.
Þessi vaxtamunaviðskipti áttu stóran þátt í að blása upp þá bólu sem sprakk á Íslandi haustið 2008. Það erlenda fé sem leitaði í íslenska skuldabréfaflokka var endurlánað til viðskiptavina íslensku bankanna og við það stækkaði umfang þeirra gríðarlega. Við hrun, þegar setja þurfti fjármagnshöft á til að hindra útflæði gjaldeyris, voru vaxtamunafjárfestingar vel á sjöunda hundrað milljarða króna.
Vextir Seðlabanka Íslands lækkuðu skarpt fyrstu árin eftir hrun. Undanfarin misseri hafa þeir hins vegar hækkað, enda vaxtahækkanir helsta stýritæki bankans til að halda aftur að verðbólgu. Stýrivextir á Íslandi eru nú t.d. 5,75 prósent á sama tima og þeir eru mjög nálægt núllinu i mörgum öðrum löndum. Þessar vaxtahækkanir hafa gert Ísland eftirsóknarverðara sem fjárfestingakost. Kynning á áætlun stjórnvalda um losun hafta, sem fyrirhugað er að muni eiga sér stað á þessu ári, gerði einnig mikið til að auka áhuga erlendra fjárfesta á því að ávaxta fé sitt á Íslandi. Losun hafta myndi enda þýða að þeir væru frjálsir til að flytja fé sitt aftur heim þegar skuldabréfaflokkarnir sem þeir fjárfestu í væru á gjalddaga.
Þegar byrjað
Ljóst var að vaxtamunaviðskipti hófust að nýju á Íslandi á fullu á síðasta ári. Þá keyptu erlendir aðilar eignir á Íslandi fyrir 76,1 milljarð króna í fyrra. Langstærstur hluti fjárfestingar þeirra var í íslenskum ríkisskuldabréfum, alls um 54 milljarðar króna. Þeir keyptu auk þess hlutabréf fyrir 5,7 milljarða króna, fasteignir fyrir 652 milljónir króna og fjárfestu í atvinnurekstri fyrir um þrettán milljarða króna. „Aðrar fjárfestingar erlendra aðila“ námu síðan um 1,1 milljarði króna.