„Það sem kemur mér á óvart er þetta eru þaulskipulögð alvarleg brot,“ segir Ólafur Magnússon, framkvæmdastjóri og einn eigenda Kú-mjólkurbús ehf., um 480 milljóna króna sekt sem Samkeppniseftirlitið hefur gert MS að greiða vegna brota gegn samkeppnislögum.
Fyrirtækið er sagt hafa misnotað markaðsráðandi stöðu sína með því að selja keppinautum hrámjólk til framleiðslu á mjólkurvörum á óeðlilega háu verði á sama tíma og MS og aðilar tengdir fyrirtækinu fengu hráefnið undir kostnaðarverði.
Samkeppniseftirlitið sektaði MS upphaflega fyrir umrædd brot í september 2014. Þá var sektin 370 milljónir króna.
Áfrýjunarnefnd samkeppnismála komst að þeirri niðurstöðu í desember 2014 að fella yrði úrskurðinn úr gildi, vegna þess að MS upplýsti ekki eftirlitið um samning á milli fyrirtækisins og Kaupfélags Skagfirðinga, sem á hlut í MS og er einn þeirra aðila sem fékk hrámjólk á lægra verði.
MS lagði samninginn ekki fram fyrr en við málflutning fyrir áfrýjunarnefndinni, þrátt fyrir að Samkeppniseftirlitið hefði ítrekað beðið um skýringar og gögn frá fyrirtækinu.
Ólafur Magnússon segir „einbeittan brotavilja“ hafa ráðið ferðinni hjá MS sem hafi beinst gegn neytendum og keppinautum á markaði. „Ég trúi ekki öðru en að búvörusamningurinn sé nú algjörlega strand, og hann í raun kominn á byrjunarreit. Það er ekki hægt að afgreiða lagabreytingar, sem gera hann fullgildan, eins þessi alvarlegu lögbrot MS sýna glögglega,“ segir Ólafur, og ítrekar að búvörusamningarnir séu í uppnámi.
Búvörusamningarnir eru samningar ríkisins við bændur. Þeir snúa bæði að landbúnaðarlögum og starfsskilyrðum við framleiðslu grænmetis, kindakjöts og nautgripaafurða. Nýjustu samningarnir eiga að gilda í tíu ár, til 2026, en möguleiki er gefinn fyrir endurskoðun á samningstímanum, árin 2019 og 2023. Fulltrúar ríkis og bænda undirrituðu samningana 19. febrúar á þessu ári, en lagabreytingar, sem þarf að ná fram til að samningarnir geti formlega tekið gildi, hafa ekki verið afgreiddar á Alþingi.