Ari Edwald, forstjóri Mjólkursamsölunnar (MS), biður alla velvirðingar á klaufalegu orðalagi sínu þegar hann sagði að neytendur myndu á endanum borga 480 milljóna króna sekt sem Samkeppniseftirlitið lagði á fyrirtækið í síðustu viku. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Ara.
Þar segir einnig: „Neytendur munu ekki bera mögulega sektargreiðslu MS. Umræða um sekt er heldur ekki tímabær þar sem málinu er ekki lokið og fer nú til áfrýjunarnefndar samkeppnismála. MS gerir sér sterkar vonir um að endanleg niðurstaða í þessu máli muni ekki fela í sér viðurlög fyrir MS. Stjórnendur MS hafa alltaf lagt ríka áherslu á að starfa í samræmi við lög og reglur. MS hefur enda aldrei sætt niðurstöðu um að hafa brotið samkeppnisreglur, hvorki af hálfu stjórnvalda né dómstóla.“
Ari segir að það séu hagsmunir MS og bænda að sem mest magn af mjólk sé unnið og selt á markaði og að vöruþróun fleiri fyrirtækja skili árangri. „ Ákvarðanir um verð á helstu mjólkurvörum í heildsölu og lágmarksverð til bænda eru teknar af opinberri verðlagsnefnd. Þar á meðal eru verðákvarðanir á öllum hráefnum sem seld eru samkeppnisaðilum MS og öðrum matvælaframleiðendum. Við ákvarðanatöku styðst verðlagsnefnd meðal annars við kostnaðarþróun í rekstri kúabúa og afurðastöðva. MS hefur því ekki nokkra hagsmuni eða getu til að misnota þá stöðu sem félagið er í.“
Þá bendir Ari á að skýrsla Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands sem kom út í fyrr hafi sýnt að sú umgjörð sem mjólkurframleiðsla á Íslandi hefur búið við á undanförnum árum hafi leitt til mikillar hagræðingar í greininni sem hafi skila neytendum milljörðum króna í lækkuðu vöruverði. Í sömu skýrslu kom einnig fram að neytendur á Íslandi borga rúmlega níu milljörðum krónum meira á ári fyrir mjólkurvörur en ef þær væru fluttar inn frá öðrum löndum í stað þess að vera framleiddar á Íslandi.
Tilkynnt var um það í síðustu viku að MS hefði verið sektuð um 480 milljónir króna af Samkeppniseftirlitinu fyrir alvarleg brot á samkeppnislögum. Fyrirtækið er sagt hafa misnotað markaðsráðandi stöðu sína með því að selja keppinautum hrámjólk til framleiðslu á mjólkurvörum á óeðlilega háu verði á sama tíma og MS og aðilar tengdir fyrirtækinu fengu hráefnið undir kostnaðarverði.