„Nú eru gögnin komin á borðið, og ég segi; ræðið“ sagði Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, að loknum ítarlegum kynningarfundi á skýrslum um skoðun á lagningu sæstrengs milli Íslands og Evrópu, einkum Bretlands. Á fundinum kynnti Sigurður Atli Jónsson, forstjóri Kviku, einnig skýrslu um kostnaðar- og ábatagreiningu á lagningu sæstrengs milli Íslands og Bretlands.
Mikil áhrif á hagvöxt
Samkvæmt henni, þá eru vísbendingar um að lagning 800 til 1.200 km. sæstrengs kunni að reynast bæði Íslands og Bretlandi þjóðhagsleg og viðskiptalega arðsöm. „Forsenda þess virðist þó vera að bresk stjórnvöld séu reiðubúin að styðja við verkefnið líkt og þau styðja í dag þarlenda nýja endurnýjanlega raforkuvinnslu. Fyrir Ísland er nettó ábatinn um 1,4 milljarðar evra og árleg jákvæð áhrif á landsframleiðslu á bilinu 1,2 til 1,6 prósent sem eru umtalsverð varanleg jákvæð áhrif,“ segir almennum niðurstöðukafla skýrslu Kviku, sem unnin var í samstarfi við ráðgjafafyrirtækið PÖYRY.
Heildarkostnaður við lagningu sæstrengs er metin á milli 3 til 3,5 milljarðar evra, eða sem nemur um allt að 476 milljörðum króna miðað við núverandi gengi krónu gagnvart evru (136 ISK = 1 evra). Þá er áætlað að kostnaður við styrkingu flutningskerfis á Íslands, til þess að gera sæstrenginn mögulegan, sé 30 til 75 milljarðar króna. Til viðbótar komi svo fleiri virkjanir.
Miklar virkjanir þarf til
Sæstrengur kallar á fjárfestingar í raforkuvinnslu upp á 1.459 MW af nýju uppsetti afli, samkvæmt því sem nefnt er mið-sviðsmynd í skýrslu Kviku. Það afl sem nemur meiru en tvöfaldi afli Kárahnjúkavirkjunar, sem langsamlega stærsta virkun á Íslandi.
Er ráðgert að sú raforka komi að hluta úr þeim virkjanakostum sem eru í nýtingarflokki rammaáætlunar, meðal annars frá smávirkjunum, vindorku, lágjarðavarma og aflaukningu í núverandi virkjunum. Sé horft til reynslu Noregs er áætlað að hæg sé að reisa um 150 MW af nýjum smávirkjunum, sem eru undir 10 MW, með tilkomu sæstrengs.
Ljóst er að rammaáætlunin, og hvernig hún mun taka á því hvar má virkja og hvar ekki, mun ráða miklu um hvort sæstrengurinn verður yfir höfuð raunhæft verkefni.
Þá er tekið fram í samantekt um málið, að hefðbundin viðskiptalíkön og regluverk fyrir sæstrengi ná ekki yfir þetta tiltekna verkefni. Sérsníða þarf viðskiptalíkan, regluverk og stuðningskerfi fyrir verkefni og fá fyrir því samþykki eftirlitsaðila. Þá kom fram á fundinum í dag, að í viðræðum milli starfshópa Íslands og Bretlands hefði töluvert verið rætt um almenningsáltið gagnvart sæstreng, bæði á Íslandi og í Bretlandi.
Óvissa og ekkert ákveðið í bráð
Ragnheiður Elín sagði að ljóst væri að engar ákvarðanir yrðu teknar um sæstrenginn á þessu kjörtímabili, en markmiðið með vinnunni sem hefði farið fram, væri að draga fram allar upplýsingar og meta verkefni heildstætt, ekki síst í ljósi þess að það hefði mikil áhrif til langs tíma.
Þá nefndi Ragnheiður Elín að niðurstaða Brexit kosninganna gæti haft áhrif á sæstrengsverkefnið, meðal annars vegna þess að Bretland gæti misst möguleikanna á niðurgreiðslukerfi Evrópusambandsins þegar kemur að uppbyggingu orkumannvirkja. „Þá er reiknað með því að strengurinn sé tengdur við Skotland, og í ljósi stöðunnar nú er erfitt að segja til um hvernig málin þróast,“ sagði Ragnheiður Elín. Hún nefndi einnig að gengisþróun gæti haft mikil áhrif á verkefnið.
Kjarninn mun fjalla ítarlega um sæstrengsskýrslurnar, sem gerðar voru opinberar í dag, á næstu vikum.