Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambands Íslands (ASÍ), segir að hann hafi krafist þess að Alþingi verði kallað saman til að færa ákvarðanir kjararáðs um tugprósenta launahækkanir forstöðumanna stofnana til baka. Slíkt hafi verið gert vegna flugumferðastjóra og þeir sem heyra undir kjararáð eigi ekki að vera stikkfrí. „Ef ekki þá verður ríkisstjórnin að axla ábyrgð á því sem yrði hennar lokaverkefni að setja hér allt í loft upp.“ Þetta kemur fram í Morgunblaðinu.
Laun forstöðumanna nokkurra ríkisstofnana hækkuðu gífurlega mikið eftir að nýr úrskurður kjararáðs um kjör þeirra lá fyrir. Hækkanirnar eru afturvirkar til allt að 1. desember 2014 og bætast ofan á 7,15 prósent hækkun sem tók gildi um síðustu mánaðarmót. Í Fréttablaðinu kemur fram að hækkanirnar komi til eftir að forstöðumennirnir sjálfir eða ráðuneyti þeirra óskuðu eftir því að launin yrðu hækkuð.
Samkvæmt ákvörðun kjararáðs í nóvember í fyrra hækkuðu laun alþingismanna og ráðherra. Eftir þá hækkun, og viðbótarhækkun sem tók gildi í sumar, er þingfarakaup 763 þúsund krónur á mánuði og laun ráðherra annara en forsætisráðherra 1.347 þúsund krónur á mánuði. Margir forstöðumenn ríkisstofnanna eru nú með umtalsvert hærri laun en allir ráðherrar landsins. Þannig er Birgir Jakobsson landlæknir með 1,6 milljónir króna á mánuði eftir að kjararáð úrskurðaði um hækkun launa hans og Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri er einnig með þá upphæð. Páll Winkel, forstjóri Fangelsismálastofnunar, hækka um 35 prósent í 1.340 þúsund á mánuði og Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu, verður með sömu tölu.
Eru rétt að byrja
Gylfi segir við Morgunblaðið að miðað við þessa niðurstöðu hljóti kjararáð væntanlega að úrskurða um hækkanir fyrir alla þingmenn og ráðherra um 30 til 40 prósent. Ráðherrar verði ekki á lakari launum en ráðuneytisstjórar.
Kjarasamningar á almennum vinnumarkaði koma til endurskoðunar í febrúar 2017 og þá verði sest yfir málið enda sé forsenduákvæði í samningunum og hluti rammasamkomulagsins sé að sátt ríki um þá leið sem lögð var.