Lesendur Fréttablaðsins, Morgunblaðsins og Fréttatímans undir fimmtugu hafa aldrei verið jafn fáir og þeir voru í júní síðastliðnum. Þá lásu 41,4 prósent landsmanna á aldrinum 18-49 ára Fréttablaðið, 28 prósent Fréttatímann og 17,5 prósent Morgunblaðið. Lesendur Viðskiptablaðsins í aldurshópnum hafa haldist nokkuð stöðugir það sem af er árinu 2016 og er nú 9,4 prósent. DV hefur hins vegar misst flugið í aldurshópnum á fyrri helmingi ársins. um síðustu áramót lásu 9,4 prósent Íslendinga á aldrinum 18-49 ára blaðið en í júní voru þeir 6,3 prósent. Þetta kemur fram í nýjum tölum Gallup um lestur prentmiðla á Íslandi.
Nýir botnar
Lestur dagblaða hefur dregist hratt saman á undanförnum árum og engin breyting virðist vera á þeirri þróun. Lestur Fréttablaðsins, fríblaðs sem dreift er í 90 þúsund eintökum á viku, hjá öllum aldurshópum var til að mynda 61,3 prósent í júní 2011. Á þeim fimm árum sem liðin eru hefur hann dregist saman í 48,1 prósent. Því hefur rúmur fimmtungur lesenda yfirgefið blaðið á þessu tímabili. Mesta brottfallið hefur verið á meðal lesenda á aldrinum 18-49 ára, en þar hefur tæpur þriðjungur hætt að lesa blaðið. Lestur Fréttablaðsins hefur aldrei mælst minni en hann var í síðasta mánuði.
Fréttatíminn er næst mest lesna blað landsins. Útgáfudögum hans var fjölgað nýverið og kemur blaðið nú út á fimmtudögum og föstudögum, en það er prentað í 83 þúsund eintökum og dreift í hús. Blaðið var fyrst með í mælingum Gallup í mars 2011 og mældist þá með tæplega 42 prósent lestur. Síðan þá hefur lesturinn rokkað töluvert en dalað það sem af er ári. Hann hefur aldrei mælst lægri en í nýjustu prentmiðlakönnun Gallup, þar sem 33,5 prósent landsmanna segjast lesa blaðið. Hjá fólki undir fimmtugu hefur lesturinn farið úr 36,2 prósent í júní 2011 í 28 prósent í júní 2016. Því hefur rúmur fimmtungur fólks í þeim aldurshópi hætt að lesa Fréttatímann á fimm árum. Fréttatíminn hefur aldrei mælst með jafn lítinn lestur og blaðið er að mælast með síðastliðna mánuði.
Morgunblaðið mælist nú með 27,8 prósent lestur og hefur hann verið nokkuð stöðugur frá því síðla árs 2014, þegar hann fór í fyrsta sinn í sögunni undir 30 prósent. Það virðist þó mest megnis vera eldra fólk sem les Morgunblaðið því einungis 17,5 prósent landsmanna undir fimmtugu lesa blaðið. Sá hópur hefur minnkað um rúman þriðjung á fjórum árum.
Ekki stórvægilegar breytingar
Viðskiptablaðið tók nokkuð skarpan kipp í lok síðasta árs í lestri. Í nóvember og desember 2015 mældist það með sinn mesta lestur frá því að blaðinu var breytt aftur í vikublað eftir hrunið, 13,4 prósent. Það sem af er ári hefur lesturinn dalað nokkuð skarpt og stóð í 10,7 prósent í júní. Það er 13 prósent minni lestur en Viðskiptablaðið var með í júní 2015.
DV hefur sömuleiðis rétt úr kútnum eftir að hafa náð sögulegum botni í lestri í ágúst í fyrra þegar 7,1 prósent landsmanna lásu blaðið. Um síðustu áramót var lesturinn kominn upp í 10,6 prósent og virtist aukningin fyrst og síðast vera tilkomin vegna fjölgunar á lesendum undir fimmtugu, en 9,5 prósent slíkra sögðust lesa DV þá. Nú lesa 9,6 pósent landsmanna blaðið en lesendurnir virðast eldast hratt. Einungis 6,3 prósent þeirra eru undir fimmtugu og hefur slíkum lesendum fækkað um þriðjung á fyrri helmingi ársins 2016.