Fjármála- og efnahagsráðuneytið, sem stýrt er af Bjarna Benediktssyni, hefur birt drög að frumvarpi til nýrra laga um kjararáð og óskað eftir umsögnum um það. Í frumvarpi felast miklar breytingar á hlutverki kjararáðs og mörg hundruð opinberir starfsmenn verða færðir undan ákvörðunum ráðsins og veittur samningsréttur.
Ákvarðanir um laun forstjóra hlutafélaga í eigu ríkisins, svo sem Landsvirkjunar, Landsbankans, Íslandsbanka og Lyfju, verða færðar aftur til stjórnar fyrirtækjanna verði frumvarpið að lögum, en þær hafa heyrt undir kjararáð frá því skömmu eftir hrun og því hafa grunnlaun forstjóranna ekki getað verið hærri en laun forsætisráðherra hverju sinni.
Forstjórar og biskup fá samningsrétt
Bjarni hafði þegar boðað að hann ætlaði sér að gera breytingar á lögum um kjararáð og færa hundruði embættismanna undan ákvörðunum ráðsins og veita þeim samningsrétt.
Í frumvarpinu er meðal annars lagt til að það verði eingöngu verkefni kjararáðs að ákvarða laun og starfskjör þjóðkjörinna manna, dómara, saksóknara, allra ráðherra, ráðuneytisstjóra og þeirra skrifstofustjóra sem heyra undir ráðherra sem fer með starfsmannamál ríkisins og fara með fyrirsvar fyrir hönd ráðherra við gerð kjarasamninga, seðlabankastjóra og aðstoðarseðlabankastjóra og ríkissáttasemjara.
Þá er lagt til að kjör skrifstofustjóra í Stjórnarráði Íslands og sendiherra verði látin taka mið af kjarasamningum á hefðbundinn hátt, þ.e. kjarasamningum Félags háskólamenntaðra starfsmanna Stjórnarráðsins, og að kjör aðstoðarmanna ráðherra taki mið af kjörum skrifstofustjóra.
Lagt er til að sérstök starfseining, á ábyrgð fjármála- og efnahagsráðherra, muni ákveða „nánari grunnlaunaflokkun og undirflokkun starfa forstöðumanna ríkisstofnana auk forsendna fyrir greiðslu viðbótarlauna þeirra en hlutaðeigandi ráðherra eða stjórn ákvarði undirflokkun og viðbótarlaun á grundvelli forsendna sem einingin setur þar sem Félagi forstöðumanna ríkisstofnana yrði gefinn kostur á að fylgjast með og fjalla fyrir hönd félaga sinna um álitamál sem upp kunna að koma vegna flokkunar starfa og forsendna viðbótarlauna.“
Forstjórar og framkvæmdastjórar fyrirtækja sem eru í eigu ríkisins þurfa ekki lengur að hafa áhyggjur af því að vera of lágt launaðir, verði frumvarpið að lögum. Það leggur til að ákvarðanir um laun þeirra verði færðar aftur til stjórna fyrirtækjanna í stað þess að kjararáð ákveði hver laun þeirra séu. Stjórnirnar eiga þá að semja um laun og starfskjör þeirra á grundvelli starfskjarastefnu fyrirtækjanna og settrar eigendastefnu ríkisins.
Að lokum er lagt til að ákvörðun um kjör biskups, vígslubiskupa, prófasta og presta þjóðkirkjunnar ráðist af samningum innan þjóðkirkjunnar en fari ekki eftir ákvörðun kjararáðs.
Hörð gagnrýni
Laun forstöðumanna nokkurra ríkisstofnana hækkuðu gífurlega mikið eftir að nýr úrskurður kjararáðs um kjör þeirra lá fyrir. Hækkanirnar eru afturvirkar til allt að 1. desember 2014 og bætast ofan á 7,15 prósent hækkun sem tók gildi um síðustu mánaðarmót. Hækkanirnar komu til eftir að forstöðumennirnir sjálfir eða ráðuneyti þeirra óskuðu eftir því að launin yrðu hækkuð.
Launahækkanirnar hafa verið harðlega gagnrýndar. Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambands Íslands (ASÍ), kallaði eftir því í gær að Alþingi verði kallað saman til að færa ákvarðanir launahækkanir forstöðumanna stofnana til baka. Slíkt hafi verið gert vegna flugumferðastjóra og þeir sem heyra undir kjararáð eigi ekki að vera stikkfrí. „Ef ekki þá verður ríkisstjórnin að axla ábyrgð á því sem yrði hennar lokaverkefni að setja hér allt í loft upp.“