Verði frumvarp Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, um breytingar á kjararáði að veruleika eru allar líkur á því að laun forstjóra fyrirtækja í eigu ríkisins muni hækka umtalsvert, eða ekki skerðast líkt og þau hefðu annars gert.
Frumvarpið mun að mestu vinda ofan af breytingum á lögum um kjararáð sem tóku gildi sumarið 2009 og gerðu það að verkum að ríkisforstjórar máttu ekki vera með hærri grunnlaun en forsætisráðherra. Þessar breytingar munu nær örugglega hafa áhrif til hækkunar á launum bankastjóra Landsbankans og forstjóra Landsvirkjunar, miðað við fyrri yfirlýsingar stjórna þeirra fyrirtækja. Og líkast til koma í veg fyrir að laun bankastjóra Íslandsbanka lækki um tugi prósenta.
Engin með hærri laun en Jóhanna
Lögum um kjararáð var breytt í ágúst 2009. Þá ákvað ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, í kjölfar hrunsins og þeirra aðhaldsaðgerða sem ríkissjóður þurfti að grípa til, að kjararáð myndi einnig „ákveða laun og starfskjör framkvæmdastjóra hlutafélaga og annars konar félaga, einkaréttareðlis, sem eru að meiri hluta í eigu ríkisins og félaga sem eru að meiri hluta í eigu félaga sem undir þessa málsgrein falla.“
Samkvæmt lögunum á kjararáð að gæta þess að „ákveða laun og starfskjör framkvæmdastjóra hlutafélaga og annars konar félaga, einkaréttareðlis, sem eru að meiri hluta í eigu ríkisins og félaga sem eru að meiri hluta í eigu félaga sem undir þessa málsgrein falla.“
Meginreglan er sú að föst laun allra forstjóra fyrirtækja í eigu ríkisins þurfi að vera lægri en laun forsætisráðherra, sem eru tæplega 1,5 milljónir króna á mánuði í dag.
Bitnaði á Steinþóri og Herði
Þetta launaþak bitnaði lengst af helst á tveimur forstjórum ríkisfyrirtækja, Steinþóri Pálssyni, bankastjóra Landsbankans, og Herði Arnarsyni, forstjóra Landsvirkjunar.
Bæði Steinþór og bankaráð Landsbankans hafa ítrekað óskað eftir því að laun hans verði hækkuð sökum þess að Landsbankinn sé svo stór banki og ábyrgð bankastjórans svo mikil að annað sé ekki tilhlýðilegt. Bankaráð hefur meðal annars sent bréf til kjararáðs þar sem stóð að Steinþór hefði náð „framúrskarandi árangri í stjórnun og rekstri bankans.“ Hann vinni á bilinu 100-120 klukkustundir á mánuði til viðbótar við hefðbundna dagvinnu. Auk þess hefur bankaráðið krafist þess að kjararáð ákveði sérstaka leiðréttingu á launum Steinþórs frá og með 1. júní 2010. Landsbankinn hefur lagt til hliðar fé til að greiða Steinþóri fyrir slíka afturvirka hækkun ef ske kynni að til hennar myndi koma. Af því hefur ekki orðið.
Miðað við fyrri vilja bankaráðs Landsbankans virðist ljóst að það myndi hækka laun Steinþórs verulega hefði það tækifæri til. Þó er vert að taka fram að samsetning bankaráðsins breyttist verulega í voru í kjölfar þess að fyrrum bankaráðsmenn sögðu af sér vegna Borgunarmálsins svokallaða.
Þegar kjararáð úrskurðaði fyrst um laun forstjóra Landsvirkjunar þá lækkuðu laun hans um 33 prósent frá því sem ráðningarsamningur Harðar Arnarsonar hafði gert ráð fyrir. Hörðum gagnrýndi ákvörðun ráðsins harkalega á þeim tíma. Í bréfi sem hann sendi til kjararáðs í febrúar 2010 sagði hann ákvörðunina ýmist illa eða alls ekki rökstudda. Ekki yrði séð við hverja kjararáð miðaði þegar laun forstjóra fyrirtækisins væru ákveðin, en Hörður taldi eðlilegt að miðað væri við laun forstjóra annarra orkufyrirtækja. Stjórn Landsvirkjunar hefur tekið undir gangrýni Harðar. Á ársfundi fyrirtækisins árið 2013 sagði þáverandi formaður stjórnar þess, Bryndís Hlöðversdóttir, í ávarpi sínu að ákvörðunin um að fella laun forstjórans undir kjararáð hefði verið „undarleg“. Með þessu hefði ein mikilvægasta ákvörðun stjórnar fyrirtækisins verið tekin úr höndum hennar og sett í opinbera nefnd. Hún kallaði eftir því að Alþingi myndi taka ákvörðunina til endurskoðunar.
Stjórnendur Lyfju og Íslandsbanka sleppa við kjaraskerðingu
Þegar íslenska ríkið samdi við kröfuhafa föllnu bankanna um uppgjör á slitabúum þeirra þá tók ríkið yfir ýmsar eignir. Á meðal þeirra var allt hlutafé í Íslandsbanka og Lyfju. Kjarninn greindi frá því í febrúar að fyrir lægi að launakjör bæði Birnu Einarsdóttur, bankastjóra Íslandsbanka, og Sigurbjörns Gunnarssonar, framkvæmdastjóra Lyfju, myndu falla undir kjararáð í nánustu framtíð að óbreyttu.
Birna var með 3,8 milljónir króna á mánuði árið 2015 og ljóst að miðað við gildandi lög um kjararáð þá þyrftu laun hennar að lækka umtalsvert. Til samanburðar voru laun Steinþórs Pálssonar, með fastri yfirborgun, 1,64 milljónir króna á mánuði í fyrra. Birna sá því fram á að verða af um 26 milljónum króna á ári í launatekjum ef laun hennar yrðu færð á sama stað og laun Steinþórs. Verði frumvarp Bjarna að veruleika munu laun hennar hins vegar ekkert lækka, nema að stjórn Íslandsbanka ákveði að svo verði.
Þótt mánaðarlaun Birnu séu 130 prósent hærri en laun Steinþórs kemst hvorugt þeirra með tærnar þar sem hæstlaunaðasti bankastjórinn er með hælanna. Sá heitir Höskuldur Ólafsson og stýrir Arion banka. Mánaðarlaun hans í fyrra voru 4,7 milljónir króna en auk þess fékk hann 7,2 milljónir króna í árangurstengdar greiðslur á því ári.