Ísland stendur sig enn og aftur verst allra þeirra 31 ríkja sem eiga aðild að Evrópska efnahagssvæðinu (EES) í að innleiða tilskipanir sem ríkin hafa skuldbundið sig til að innleiða í lög innan tímamarka. Innleiðingarhalli Íslands er 1,8 prósent. Hin EFTA-ríkin sem eru aðilar að EES, Liecthenstein og Noregur, standa sig mun betur. Í Liecthenstein er innleiðingarhallinn 1,2 prósent en í Noregi enginn. Meðal innleiðingarhali í Evrópusambandsríkjum er 0,7 prósent. Þetta kemur fram í nýju frammistöðumati EES sem Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) birti í dag.
Þar segir að Ísland hafi ekki innleitt 16 tilskipanir innan tímamarka, og sumar varða þær mikilvæg réttindi almennings. „Þegar EES-ríki innleiðir ekki tilskipun innri markaðarins á réttum tíma fá einstaklingar og fyrirtæki ekki notið þeirra réttinda sem hún felur í sér. Íslensk fyrirtæki kunna til dæmis að útilokast frá aðgangi að innri markaðinum ef samræmdar tæknilegar reglur eru ekki innleiddar. Því lengur sem innleiðing dregst, því alvarlegri geta afleiðingarnar orðið.“
Meðal óinnleiddra tilskipana er tilskipun um nýjar ráðstafanir og aukið eftirlit með framleiðendum lyfja til að sporna gegn viðskiptum með fölsuð lyf. Þá má einnig nefna tilskipun sem felur í sér réttindi sjúklinga til heilbrigðisþjónustu þvert á landamæri. Með henni verður íslenskum sjúklingum auðveldað að nýta sér heilbrigðisþjónustu innan EES-svæðisins og fá kostnað við slíka þjónustu endurgreiddan frá ríkinu.
Sven Erik Svedman, forseti ESA, segir að Ísland verði að gera mun betur til að standa við skuldbindingar sínar varðandi innleiðingu á lögum og reglum EES-samningsins. „nnri markaðurinn gagnast bæði einstaklingum og fyrirtækjum og það er Íslendingum í hag að staðið sé betur að þessum málum. Innleiðing sameiginlegra reglna á réttum tíma er forsenda þess að innri markaðurinn virki vel og mikilvægt er að ríkin standi við skuldbindingar sínar gagnvart öðrum ríkjum EES-svæðisins. Í nýlegri ferð minni til Íslands átti ég góða fundi með stjórnmála-og embættismönnum og ég veit því að það er vilji til að bæta þessa frammistöðu. ESA hvetur Ísland til að nýta þennan vilja og grípa til aðgerða sem tryggja að það verði ekki eftirbátur annarra.“
Til viðbótar við innleiðingarhallann bíðu sjö mál gegn Íslandi afgreiðslu EFTA-dómstólsins í desember 2015, en í maí sama ár voru þau þrjú og hafði því fjölgað um fjögur á hálfu ári.
Utanríkisráðuneytið sendi frá sér tilkynningu í kjölfar þess að ESA birti frammistöðumatið. Þar segir að Ísland hafi stöðugt verið að bæta „þessa hlið á framkvæmd EES-samningsins. Í nóvember 2014 var hallinn 2,8 prósent og 3,1 prósent í apríl 2014. Þó er ljóst að það þarf að gera betur því miðað er við að innleiðingarhalli hjá ríkjum á evrópska efnahagssvæðinu (EES) sé ekki umfram 1 prósent.“