Páll Magnússon, fyrrverandi útvarpsstjóri RÚV og núverandi stjórnandi útvarpsþáttarins Sprengisands á Bylgjunni, segist vera að íhuga framboð. Í viðtali við Pál í DV í dag kemur fram að stuðningsmenn tveggja stjórnmálaflokka hafi talað við hann um að fara í framboð fyrir þá í haust. Hann segir að í fyrsta sinn sem honum hafi boðist slíkt sé hann að hugsa málið og hafi ekki sagt þvert nei. Páll vill ekki segja um hvaða stjórnmálaflokka sé að ræða.
Aðspurður hvar hann staðsetji sig í hinu pólitíska litrofi segir Páll við DV að hann sé frjálslyndur. „Sennilega myndi einhver vilja bæta við: hægra megin við miðju - en þessi vinstri/hægri skali dugar ekki jafnvel og áður til að staðsetja fólk á hinu pólitíska litrófi. Píratar fara með hæstum hæðum núna, eru þeir vinstri flokkur eða hægri flokkur? Ég veit það ekki; held helst að þeir séu hvorugt. Það unga fólk sem ég tala við notar ekki skiptinguna í hægri og vinstri með sama hætti og áður tíðkaðist og hugsar ekki eftir sömu línum og eldri kynslóðin gerir. Smám saman er þessi vinstri-hægri skali ekki lengur að svara spurningum um það hvaða pólitísku afstöðu fólk hefur í þeim mæli sem hann gerði.“