Þrír lögreglumenn voru skotnir til bana í borginni Baton Rouge í Louisiana-fylki í Bandaríkjunum um níuleytið í morgun að staðartíma. Einn árásarmaður hefur verið skotinn til bana, en samkvæmt fréttum New York Times er fleiri árásarmanna leitað.
Lögregla hefur lokað öllum götum milli höfuðstöðva lögreglunnar í borginni og þjóðvegs tólf, en innan þess svæðis er talið að árásarmennirnir geti hafa haldið sig.
Samkvæmt fréttamiðlum vestanhafs voru lögreglumennirnir skotnir nálægt Old Hammond þjóðveginum.
Baton Rouge hefur verið í brennidepli að undanförnu eftir að lögreglumenn skutu hinn 37 ára gamla Alton Sterling til bana á dögunum, eftir að hann hafi verið yfirbugaður. Lögreglumennirnir hafa borið fyrir sig að Sterling hafi verið að seilast eftir byssu þegar þeir skutu hann, en það var ekki svo. Kærasta hans sýndi beint frá því með aðstoð Facebook Live þegar lögreglan skaut Sterling. Hann var að teygja sig eftir skilríkjum sínum þegar lögreglumaður skaut Sterling fjórum sinnum.