Mun fleiri sjálfstæðismenn í Suðurkjördæmi vilja að Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, leiði lista flokksins í kjördæminu í komandi Alþingiskosningum en að Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra og núverandi oddviti flokksins, geri það. Í könnun sem stuðningsmenn Elliða létu Maskínu gera fyrir sig kemur fram að 61 prósent þeirra sem spurðir voru vilji frekar Elliða en Ragnheiði Elínu og að 67,5 prósent sögðust líklegri til að kjósa flokkinn með Elliða í brúnni en Ragnheiði Elínu. Frá þessu er greint á mbl.is.
Úrtakið í könnuninni var 529 kjósendur í Suðurkjördæmi en ekki er greint frá því hvernig úrtakið var valið. Spurt var tveggja spurninga:
1.Hvort vilt þú að Elliði Vignisson bæjarstjóri í Vestmannaeyjum eða Ragnheiður Elín Árnadóttir ráðherra leiði lista Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi í næstu Alþingiskosningum?
2. Værir þú líklegri eða ólíklegri til að kjósa Sjálfstæðisflokkinn í næstu Alþingiskosningum ef Elliði Vignisson myndi leiða listann í Suðurkjördæmi en ekki Ragnheiður Elín Árnadóttir?