Erlendir ferðamenn hafa aldrei eytt meiri peningum á Íslandi en þeir gerðu í júní síðastliðnum. Alls nam erlend greiðslukortavelta í mánuðinum tæpum 26 milljörðum króna, sem er átta milljörðum krónum meira en hún var í sama mánuði 2015. Það þýðir að aukningin á milli ára er rúmlega 40 prósent. Þetta kemur fram í nýjum tölum frá Rannsóknarsetri verslunarinnar.
Það sem af er ári hafa erlendir ferðamenn greitt um 100 milljörðum króna með kortum sínum. Mest hefur farið í flugferðir, eða um 19 milljarðar króna, en um 18 milljarðar króna fóru í gistiþjónustu. Þá hafa þeir eytt 11,6 milljörðum króna í verslun á fyrstu sex mánuðum ársins.
Meðalvelta í krónum talið er eilítið hærri en hún var í júní í fyrra, eða um 139 þúsund á hvern ferðamann. Mest eyða ferðamenn frá Sviss, eða 245 þúsund krónum að meðaltali, en Kínverjar (67 þúsund krónur) og Pólverjar (28 þúsund krónur) eru með lægstu meðalveltuna.
Það kemur kannski fæstum á óvart en ferðamenn sem heimsóttu Ísland hafa aldrei verið fleiri en í nýliðnum júnímánuði, þegar 186 þúsund slíkir fóru til og frá landinu. Það er tæplega 36 prósent fleiri en komu hingað í júní 2015. Alls komu um 700 þúsund ferðamenn til Íslands á fyrstu sex mánuðum ársins, sem er 183 þúsund fleiri en komu hingað á sama tímabili í fyrra og jafn margir og heimsóttu landið allt árið 2012. Vert er að taka fram að júlí og ágúst eru vanalega þeir mánuðir sem flestir ferðamenn heimsækja Ísland og því má búast við því að enn fleiri slíkir komi hingað til lands á síðari hluta ársins en gerðu það á fyrstu sex mánuðum þess.