Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar og þingmaður Framsóknarflokks, kannast ekki við þau ummæli Eyglóar Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra og ritara flokksins, um „slagsmál“ við Sjálfstæðisflokkinn um fjárframlög til velferðarmála.
„Ég tala bara fyrir mig, en samstarfið við flokkinn í fjárlaganefnd hefur verið afar gott og aldrei borið neinn skugga á,“ segir Vigdís í samtali við Kjarnann. „Ég kannast ekki við þessar yfirlýsingar Eyglóar út frá mínu sjónarhorni, en ég veit auðvitað ekki hvað gerist við ríkisstjórnarborðið.“
„Mikil átök“ við Sjálfstæðisflokkinn
Eygló sagði í fréttum RÚV í gær að hún hafi verið í slagsmálum við samstarfsflokkinn í ríkisstjórn um framlög til velferðarmála. Sjálfstæðisflokkurinn leggi meiri áherslu á að lækka skatta á þá efnamestu. Viðræður um breytingar á húsnæðiskerfinu og aukin fjárframlög inn í velferðarkerfið hafi hingað til strandað á Sjálfstæðismönnum.
„Það hafa verið mikil átök. Stundum jafnvel slagsmál við samstarfsflokkinn um framlög inn í velferðarkerfið,“ sagði Eygló.
Farsælt samstarf í fjárlaganefnd
Vigdís segir samstarf sitt við Sjálfstæðisflokkinn aftur á móti hafa verið gott.
„Það hefur verið mjög farsælt samstarf á milli mín og Guðlaugs Þórs og meirihluta fjárlaganefndar allt kjörtímabilið,“ segir hún. „Við höfum verið mjög samstíga um forgangsröðun í málefnum ríkisins.“ Hún undirstrikar einnig að báðir flokkar í fjárlaganefnd hafi verið sammála þegar kemur að húsnæðismálunum, að reka ríkissjóð með afgangi og minnka skuldir ríkisins. „Ef ríkið skuldar mikið og þarf að borga hátt hlutfall í vexti þá skrúfast allt niður. Þá er voðinn vís og ekki hægt að setja fjármagn í velferðarmál ef ríkissjóður er stórskuldugur,“ segir hún. „En ég ítreka að ég veit ekki hvað gerist við ríkisstjórnarborðið.“
Ummæli Eyglóar „ansi billeg“
Guðlaugur Þór Þórðarson, varaformaður fjárlaganefndar og þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði síðar við RÚV að ummæli Eyglóar væru „ansi billeg“ og furðar sig á þeim. Þá sagði hann Eygló sjálfa hafa getað forgangsraðað öðruvísi í sínum málaflokkum, til dæmis með Íbúðalánasjóð.
„Kominn kosningaskjálfti í suma“
Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokks, segir á Facebook-síðu sinni að ummæli Eyglóar endurspegla að kominn sé „kosningaskjálfti í suma“, eins og hún orðar það.
Ragnheiður segir að ótrúlegt hafi verið að hlusta á Eygló segjast hafa verið í slagsmálum við Sjálfstæðisflokkinn allt kjörtímabilið. „Við höfum unnið með Framsókn að mörgum málum, leitt þau lykta, báðir flokkar hafa lagt sitt af mörkum, þurft að gefa eftir og fá sitt fram.“ Þá sé þessi taktík Eyglóar þekkt fyrirbæri. „En mér hugnast hún ekki,“ segir Ragnheiður.
Eygló hnýtir í Bjarna
Eygló sagði jafnframt að það hafi sést á síðustu dögum að menn í Sjálfstæðisflokknum hafi verið að leggja aukna áherslu á velferðarmálin og lagt aukna fjármuni inn í heilbrigðiskerfið. „Það er oft betra seint en aldrei. Ég myndi náttúrulega horfa til þess.“
Þar á Eygló að öllum líkindum við viðtal við Bjarna Benediktsson, fjármálaráðherra og formann Sjálfstæðisflokksins, við Morgunblaðið þar sem hann sagði að flokkurinn mundi forgangsraða stefnumálum sínum á næsta kjörtímabili í þágu velferðarmála og heilbrigðisþjónustu.
Ekki náðist í Bjarna Benediktsson við vinnslu fréttarinnar.