Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra kannast ekki við að hafa staðið í átökum, eða jafnvel slagsmálum, við Eygló Harðardóttur félagsmálaráðherra um framlög til velferðarmála. Aldrei hafi meira fé verið varið í almannatryggingakerfið en nú. Eygló var harðorð í garð Sjálfstæðisflokksins í vikunni þar sem hún sagði átökin hafa verið mikil milli flokkanna og jafnvel slagsmál.
„Ég kannast ekki við neitt slíkt,“ segir Bjarni við Kjarnann. „Eins og gengur vilja allir ráðherrar að jafnaði auka við sína málaflokka en á endanum er það samkomulagsmál innan ríkisstjórnar hvernig svigrúminu er skipt hverju sinni. Það má þvert á það sem Eygló segir frekar halda því fram að forgangsraðað hafi verið í þágu hennar málaflokka.“
Óþarfi hjá Eygló að gera lítið úr árangrinum
Bjarni segir það óþarfi hjá Eygló að gera lítið úr þeim árangri sem hafi náðst, til dæmis í húsnæðismálum, í hennar ráðherratíð.
„Við höfum auk þess stóraukið framlög til almannatrygginga, þótt vissulega séu enn margir sem eiga erfitt með að ná endum saman. Það breytir því ekki að við höfum náð árangri,“ segir Bjarni. „Því er ekki að leyna að við höfum á sama tíma þurft að taka til í ríkisfjármálunum og erum að stórlækka skuldir. Við höfum t.d. endurgreitt öll AGS lánin og njótum góðs af þessum áherslum með betra lánshæfi ríkisins í dag.“
Vigdís ósammála Eygló
Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar, tók ekki undir ummæli Eyglóar í Kjarnanum í vikunni. „Ég tala bara fyrir mig, en samstarfið við flokkinn í fjárlaganefnd hefur verið afar gott og aldrei borið neinn skugga á,“ sagði Vigdís. „Ég kannast ekki við þessar yfirlýsingar Eyglóar út frá mínu sjónarhorni, en ég veit auðvitað ekki hvað gerist við ríkisstjórnarborðið.“ Guðlaugur Þór Þórðarsson, varaformaður nefndarinnar, hafði sagt ummæli Eyglóar „ansi billeg.“
Gagnrýndi Bjarna harðlega
Eygló sagðist hafa undir höndum tölur sem sýndu fram á að vaxtabætur hafi rýrnað mikið síðan ríkisstjórnin tók til valda. Þær hafi lækkað um 25 prósent á síðasta ári og þeim sem fengu þær fækkuðu um 21 prósent. Þá hafi þeim einnig fækkað sem fengu greiddar barnabætur.
Bjarni segir við þessu að það standi ekki til að draga úr barnabótum og vaxtabótum, heldur haldist framlögin óbreytt að raunvirði. Þó sé til skoðunar að áform um aukinn stuðning við fyrstu kaup sem eftir atvikum gætu falið í sér að framlög til vaxtabóta yrðu smám saman látin fjara út. Þar vísar Bjarni í fjármálaáætlun sína. Eygló sagði að sú fjármálaáætlun boði einmitt enn frekari lækkun á barna- og vaxtabótum. Þá hafi ríkið aldrei varið meiru til almannatryggingakerfisins en gert er á þessu ári. Það á við hvort sem litið er til hlutfalls af landsframleiðslu eða sem hlutfalls af frumgjöldum. Nú fara um 27 milljarðar til almannatrygginga á ári umfram það sem átti við þegar ríkisstjórnin tók við völdum.
Tók undir með Bjarna 2014
Eygló sagði reyndar slíkt hið sama í fréttum í desember 2014 þegar Öryrkjabandalag Ísland gagnrýndi framlög ríkisins í almannatryggingakerfið. Þar sagði Eygló:
„Það hafa komið ábendingar og í fjölmiðlum. Við höfum lagt áherslu á það að aldrei hafi farið meiri fjármunir í gegnum almannatryggingakerfið en á þessu ári. Og við aukum enn frekar í á næsta ári".