Tíu eru látnir eftir að 18 ára Þjóðverji hóf skothríð í verslunarmiðstöð í München í Þýskalandi seinnipartinn í gær. Árásarmaðurinn svipti sig lífi eftir að hafa skotið á mannfjöldann, eftir að hafa skotið níu til bana og sært 21. Þýskir fjölmiðlar greina frá því að maðurinn hafi aðhyllst hægri öfgastefnu og litið mjög upp til fjöldamorðingjans Anders Bering Breivík.
Flestir jafnaldrar morðingjans
Flest þeirra látnu voru ungt fólk. Þrír voru fjórtán ára, tveir fimmtán ára, eitt 17 ára, eitt 19 ára, 20 og 45 ára. Öll voru þýsk og búsett í München. Maðurinn notaði Glock-skambyssu til að fremja ódæðið.
The Guardian greinir frá því að árásarmaðurinn hafi aflað sér upplýsinga um skotárásir og viðbragðstíma lögreglu. Lögreglan komst að þessu eftir að húsleit var gerð heima hjá honum í morgun. Ekkert benti til þess að hann hefði tengsl við hryðjuverkasamtök, eða hafi stundað öfgatrú, en hann var af írönsku bergi brotinn. Ekkert liggur fyrir um ástæður verknaðarins. Lögreglan óskar eftir því að fá myndskeið send frá almenningi, sem og ljósmyndir og hljóðupptökur sem teknar voru á meðan á árásinni stóð.
Lokkaði skólafélaga í gegn um Facebook
Greint var frá því í þýskum fjölmiðlum í morgun að árásarmaðurinn virðist hafa lokkað ungmenni í verslunarmiðstöðina í gegn um Facebook áður en hann réðist til atlögu. Hann á að hafa boðið þar ókeypis varning til að fá sem flest ungt fólk. Hann þóttist þar vera ung kona. Hann lagði áherslu á að hafa samband við skólasystkini sín.
Líkt við Columbine og Útey
Maðurinn átti erfiða skólagöngu og hafði þjáðst af þunglyndi. Þýskir fjölmiðlar slá því upp að tenging sé á milli hans og Anders Bering Breivík, sem myrti 77 í Útey þann 22. júlí 2011, en árásin í München var framin þegar fimm ár voru liðin síðan Breivík framdi fjöldamorðin. Þá er árásinni líkt við skorárásina í framhaldsskólanum Columbine í Bandaríkjunum árið 1999 þegar tveir nemendur skólans skutu 12 samnemendur sína til bana og einn kennara.