„Útlendingaspítalinn myndi því rústa því sem eftir er af íslensku heilbrigðiskerfi og gera endurreisn þess margfalt erfiðari en ella. Lífi og limum landsmanna steðjar því hætta af Brugada og hugmyndum hans um það hvernig hann geti gert sér fé úr heilbrigðisþjónustu á Íslandi.“ Þetta segir Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, í aðsendri grein sem birtist í Fréttablaðinu í dag. Þar fjallar Kári um þau áform félagsins MCPB, sem leitt er af spænska lækninum Pedro Brugada, að byggja 30 þúsund fermetra einkaspítala í Mosfellsbæ sem eigi að vera tilbúinn árið 2020.
Kári segist vita fyrir víst að Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra sé mjög mótfallinn hugmyndinni og hvetur hann til að sýna „leiftrandi festu“ við að koma í veg fyrir að af framkvæmdinni verði. „Ég vil benda honum á að þegar ísbirnir ganga á land og lífi okkar og limum steðjar hætta af þeim leyfum við okkur að skjóta þá. Nú er ég ekki að leggja það til að við gerum hið sama við Brugada heldur að við förum að mannúðlegri tillögu Jóns Gnarr um birnina og svæfum hann og flytjum upp á Grænlandsjökul."
Áætlaður kostnaður við gerð spítalans er 47 til 54 milljarðar króna, en hann á að vera með 150 sjúkraherbergi auk þess sem þar verður hótel með 250 herbergjum.
Stærsta undirskriftarsöfnun Íslandssögunnar
Kári stóð fyrir undirskriftasöfnun fyrr á þessu ári þar sem hvatt var til endurreisnar íslensks heilbrigðiskerfisins Þar voru stjórnvöld hvött til þess að verja ellefu prósent af vergri landsframleiðslu til heilbrigðiskerfisins árlega, í stað 8,7 prósentum eins og gert er í dag. Alls skrifuðu 85 þúsund manns undir undirskriftasöfnunina sem er sú fjölmennasta í Íslandssögunni.
Þeir sem standa fyrir byggingu einkaspítalans hafa sagt að hugmyndin sé fyrst og fremst sú að flytja inn erlenda sjúklinga til meðferðar á spítalanum. Íslenskir sjúklingar geti líka sótt þjónustu þar gegn fullri greiðslu en að ekki standi til að taka við íslenskum sjúklingum á kostað íslenska heilbrgiðiskerfisins.
Læknisfræðitúrismi erfiður bisness
Kári virðist ekki mjög trúr á þessar skýringar. Hann segir það athyglisvert að meðal fjárhagslegra bakhjarla hugmyndarinnar um útlendingasjúkrahús í Mosfellsbæ séu aðilar sem hafa fjárfest í heilbrigðisstofnunum í þriðjaheiminum. „Það kæmi mér því ekki á óvart að þeir vildu reisa sjúkrahús á Íslandi vegna þess að þeir hefðu náð sér í ástæður til þess að ætla að hér á landi þyrftu menn ekki að uppfylla eins stíf skilyrði til þess að fá að reka sjúkrahús eins og annars staðar í Evrópu; þeir kæmust upp með meira hér en annars staðar.
Það ber líka að hafa í huga að þótt okkur sé sagt að sjúkrahúsinu sé fyrst og fremst ætlað að þjóna útlendingum þá hefur læknisfræðitúrismi reynst erfiður bissness og því ekki bara líklegt heldur meira en víst að það færi hægt og hægt að draga til sín fé frá heilbrigðiskerfi íslensks almennings og leggja af mörkum til þess að búa til stéttaskiptingu í heilbrigðisþjónustu í landinu sem við erum flest sammála um að sé með öllu óþolandi. Það sem alvarlegast er þó við hugmyndina um útlendingaspítalann er að honum er ætlað að ráða þúsund manns til starfa á sama tíma og okkur reynist erfitt að manna þær heilbrigðisstofnanir sem þjónusta landsmenn.“