Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, segir kosningar í haust geta orkað tvímælis. Viljinn sé allt sem þurfi til að ríkisstjórnin geti framfylgt fjögurra ára áætlun sinni og það sé ótækt að klára ekki þau mikilvægu verkefni sem séu í seinni hluta áætlunarinnar. Sum snúi að endurbótum á lögum og reglum, hin að fjárfestingu og uppbyggingu. Þetta segir Sigmundur í grein í Morgunblaðinu í dag.
Sigríður Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokks, tekur undir með Sigmundi í blaðinu að hún hafi alltaf haft efasemdir um kosningar í haust. Haft er eftir Ástu Guðrúnu Helgadóttur, þingmanni Pírata, að óbreyttir þingmenn eins og Sigmundur og Sigríður hafi ekkert um það að segja hvort það verði kosið í haust eða ekki. Það sé þó sjálfsögð kurteisi að boða til haustkosninga eins og lofað hefur verið.
„Íslandi allt“
„Tíminn til að standa við loforðin sem við höfum gefið er núna,“ sagði Sigmundur í bréfi sem hann sendi flokksmönnum sínum í gær og boðaði endurkomu sína. „Ég er kominn heim,“ skrifaði hann og lauk bréfinu á orðunum: „Íslandi allt“.
Í grein sinni í Morgunblaðinu segir Sigmundur að núverandi ríkisstjórn verði að skila áþreifanlegum árangri fyrir byggðir landsins. „Klári hún það ekki mun önnur ríkisstjórn ekki gera það. Skaðinn af því að vanrækja stærstan hluta landins yrði mikill skaði fyrir landið allt.“