Innlögnum unglinga á sjúkrahúsinu Vogi hefur fækkað um helming síðan árið 2002. Nýgengi ungra fíkla á sjúkrahúsinu varð mest árið það ár og fór þá í rúmlega 800 á hverja 100.000 íbúa á aldrinum 15 til 19 ára. Síðan hefur dregið stöðugt úr nýgengi innlagna þeirra sem eru yngri en 20 ára og í fyrra var það komið niður í tæp 300 á sama mælikvarða. Þetta kemur fram í grein Þórarins Tyrfingssonar, forstjóri á Vogi, í grein í síðasta Læknablaði.
Þar segir að á árunum 1996 til 2015 hafi 2.853 einstaklingar, 19 ára eða yngri, leitað sér meðferðar á Vogi í fyrsta sinn. Hlutfall kvenna og stúlkna var um 38 prósent. Á sama árabili fjöldi innritana fyrir sama aldurshóp 6.340 talsins og er því ljóst að endurkomur eru nokkuð tíðar. Það vímuefni sem gerir unglingana helst félagslega óvirka er kannabis en þeim stafaði einnig hætta af amfetamíni, e-pillu, morfíni og vímuefnaneyslu í æð.
Þórarinn segir í grein sinni að árið 1977, þegar SÁÁ var stofnað, hafi unglingadrykkja verið vel þekkt vandamál á Íslandi. Unglingar á aldrinum 15 til 19 ára hafi snemma byrjað að koma á Vog til meðferðar. Á níunda áratugnum hafi unglingum í meðferð fjölgað jafnt og þétt og kannabisneysla orðið algengari. Á árunum 1995 til 2000 jukust innritanir áfengis- og vímuefnasjúklinga á aldrinum 15 til 19 ára á Vog skyndilega úr rúmlega 100 á ári í rúmlega 300 árlega á þessum aldri.
Neysla jókst með harðari efnum
„Upp úr 1995 fór neysla vímuefna hratt vaxandi á Íslandi og hélst mikil fram yfir aldamót. Kókaín kom til Reykjavíkur 1999 og vímuefnasjúklingar sem sprautað höfðu amfetamíni í æð sóttu í vaxandi mæli í morfín sem þeir leystu upp úr forðatöflum ætluðum verkjasjúklingum,“ segir Þórarinn í grein sinni. „Ástandið fór hratt versnandi en átakanlegast var þó að áður óþekktur fjöldi ungmenna 19 ára og yngri rataði í vímuefnavanda. Unglingar höfðu alla tíð verið hluti af sjúklingahópnum hjá SÁÁ en svo brá við rétt fyrir síðustu aldamót að fjöldi ungu einstaklinganna sem lagðist inn á Sjúkrahúsið Vog ríflega tvöfaldaðist árlega.“
Rótin segir Vog ekki henta börnum og unglingum
SÁÁ brást við auknum fjölda innlagna unglinga eftir árið 1999 með því að byggja sérstaka deild á Vogi, sem í daglegu tali er kölluð „Bangsadeildin“, og göngudeildarþjónusta var aukin.
Rótin, félag um málefni kvenna með áfengis- og fíknivanda, óskaði árið 2014 eftir áliti umboðsmanns barna um aðbúnað barna og unglinga á Vogi. Að mati félagsins hentaði sjúkrahúsið ekki fyrir þann aldurshóp.
Guðrún Ebba Ólafsdóttir, ein af forsvarsmönnum Rótarinnar, sagði í samtali við RÚV í október árið 2014 að á Vogi séu allt of mörg dæmi um óharnaða unglinga sem hittir fólk þar sem var í harðari neyslu en það sjálft. Þá hafi félagið heyrt um menn innan sjúkrahússins sem notfæri sér ungar stúlkur og drengi. Þá benti hún á lög sem segja að börn hafi rétt á að hafa foreldra eða aðra nána vandamenn hjá sér ef þau eru á sjúkrahúsi eða heilbrigðisstofnun.
Í svari umboðsmanns barna við erindi Rótarinnar haustið 2014 sagði að ekki hafi verið talin ástæða til að hafa áhyggjur af aðbúnaði barna á unglingadeildinni á Vogi. Þó sé rétt að taka fram að embættið hafi ekki sérþekkingu til að meta það faglega starf sem þar fer fram. SÁÁ brást einnig við gagnrýni Rótarinnar á sínum tíma og vísaði henni alfarið á bug.