Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra, útilokar ekki að hann stefni á að fara aftur í ríkisstjórn á þessu kjörtímabili. Hann segist meta það hverju sinni hvað sé best til að ná framgangi mála og muni gera það á hverjum degi en segir að hann muni beita sér á hvaða hátt sem hann getur. „Hvað ríkisstjórnina varðar mun ég hafa aðkomu að því hvernig þetta gengur fyrir sig.“
Sigmundur Davíð ætlar að bjóða sig áfram fram í Norðausturkjördæmi í næstu kosningum, líkt og hann gerði árið 2013. Annað hafi aldrei hvarflað að honum. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.
Höfum ekki siðferðislegan rétt til að boða til kosninga
Sigmundur Davíð boðaði fulla endurkomu sína í stjórnmál með bréfi til flokksmanna Framsóknarflokksins í byrjun viku. Þar kom skýrt fram að honum hugnaðist ekki að kjósa í haust, líkt og forsvarsmenn ríkisstjórnar Sigurðar Inga Jóhannssonar hafa boðað og báðir þingflokkar að baki hennar hafa samþykkt. Sigmundur Davíð segir við Morgunblaðið að það séu einungis tvær ástæður fyrir stjórnarslitum; annars vegar ef stjórnarmeirihlutinn heldur ekki og hins vegar ef stjórnin telur sig hafa lokið verkefni sínu og að það sé orðið tímabært að boða til nýrra kosninga. „Ég sé engin merki þess að stjórnin sé að falla. Er stjórnin að ná að klára sín verkefni? Ég get ekki séð að svo sé. Það má ekki gleyma kjósendum sem studdu okkur. Við höfum ekki siðferðislegan rétt til þess að boða til kosninga í haust nema menn séu búnir að klára það sem þeir lofuðu.“
Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, er hins vegar afdráttarlaus í samtali við Fréttablaðið í dag. Þar segir hann að þingrof hafi verið rætt á fundum hans við forystumenn ríkisstjórnarinnar og að gengið sé út frá því sem vísu að kosið verði á haustmánuðum. Hugmyndir Sigmundar Davíðs um annað skipti engu máli þar sem hann sé ekki hluti af forystu ríkisstjórnar. „Við höfum rætt það á okkar fundum, ég og forystumenn ríkisstjórnarinnar, að þinglok verði í haust og boðað verði til kosninga eins og lofað hefur verið. Ég tel orð forystumanna þessarar ríkisstjórnar hafa verið mjög afdráttarlaus, bæði í samtali við mig og fjölmiðla, og því leikur enginn vafi á að kosið verði í haust.“
Segir Pírata hrokafulla
Í Morgunblaðinu segir Sigmundur Davíð að sér finnist í auknum mæli gæta hroka hjá Pírötum. Sá hroki hafi ekki skánað eftir að flokkurinn fór að telja sig talsmenn almennings og rödd fólksins. „Það er reyndar einkenni flokka á jaðrinum í stjórnmálum. Það er hættuleg þróun hjá Pírötum að þeir fari að ímynda sér að það sé þeirra að boða kosningar.“Leiðari um einstaka aðför gegn Sigmundi Davíð
Í leiðara Morgunblaðsins er stuðningi lýst við áform Sigmundar Davíðs og grein hans í blaðinu á þriðjudag lofuð. Þar segir að forsætisráðherrann fyrrverandi hafi tekið sér frí frá störfum í ríkisstjórn „til að fá tóm til að fara yfir mál sem Ríkisútvarpið hafði þyrlað upp og svo að endurskoðendur og skattyfirvöld gætu upplýst hvort eitthvað væri óuppgert þar. Því er lokið. Ekkert er óuppgert. Fræ efans, sem Ríkisútvarpið sáði, ættu því ekki að skjóta rótum. Mat fréttamiðilsins Guardian í mars sl. reyndist hins vegar rétt: »Guardian hefur ekki séð neinar sannanir fyrir skattaundanskotum, undanbrögðum eða óheiðarlegum ávinningi Sigmundar Davíðs, Önnu Sigurlaugar eða Wintris.“
Morgunblaðið segir að það eina sem eftir standi í Wintris-málinu svokallaða séu hugleiðingar um hvort heppilegra hefði verið að málsins hefði verið getið meðan togstreitu við kröfuhafa stóð. „Eftiráspekin gagnkunna segir að það hefði verið þarft. En sú speki sýnir einnig að Sigmundur Davíð var ætíð sá stjórnmálamaður sem lengst vildi ganga til að tryggja íslenska hagsmuni gagnvart kröfuhöfunum. Tímaritið Þjóðmál birtir þessa dagana mjög athyglisverða grein eftir Pál Vilhjálmsson blaðamann. Greinin ber yfirskriftina Aðför RÚV að Sigmundi Davíð. Undirfyrirsögnin er: Einstakt dæmi um misnotkun fjölmiðlavalds. Hver sá sem les tímaritsgreinina til enda sér að ekkert er ofsagt í þeirri fyrirsögn. Við skulum vona að aðförin verði einstakt dæmi.“