Engar framkvæmdir verða hafnar við byggingu einkasjúkrahúss í Mosfellsbæ fyrr en búið er að sækja um skattaívilnanir hjá stjórnvöldum. Þá verða nöfn fjárfesta heldur ekki gerð opinber fyrr en umsagnirnar verða lagðar fram. Gögn um nöfn fjárfesta og mat frá viðskiptabanka verða lögð fyrir stjórnvöld og hafa forsvarsmenn sjúkrahússins frest til þess fram til 1. desember 2017. Þetta segja bæjastrjóri Mosfellsbæjar og stjórnarmaður MCPB, sem stendur að framkvæmdunum. Áætlað er að sjúkrahúsið muni kosta um 50 milljarða króna. Landið er við Sólvelli í Mosfellsbæ við Hafravatnsveg.
Ekki venjulegt fyrirtæki
Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri Mosfellsbæjar, segir í samtali við Kjarnann að sú undantekning hafi verið gerð á samningnum við MCPC að ekki verði lögð fram gögn um mat frá banka eða fjármálastofnun áður en lóðinni var úthlutað. Frestur var veittur til 1. desember 2017. Í úthlutunarreglum vegna byggingalóða í Mosfellsbæ segir að umsækjendur um lóðir skuli leggja fram mat frá viðskiptabanka eða fjármálastofnun ásamt greinargerð umsækjanda sjálfs um að viðkomandi geti staðið undir þeirri fjárfestingu sem áætluð er. Haraldur segir samninginn hafa verið gerðan með fyrirvara um slík gögn, en þau þurfi að liggja fyrir í desember á næsta ári og nú vinni Capacent að gerð viðskiptaáætlunar verkefnisins.
„Þetta er að mörgu leyti óvenjulegt verkefni,“ segir hann. „Það er ekki eins og það sé verið að úthluta lóð til venjulegs fyrirtækis.“
Ekki hægt að kaupa fyrr en ívilnanir fást
Gunnar Ármannsson, stjórnarmaður Í MCPB, segir við Kjarnann að framkvæmdir geti ekki hafist fyrr en öll gögn liggi fyrir. Ástæðan fyrir fyrirkomulaginu við Mosfellsbæ, að lóðin sé fyrst leigð og síðan tryggður kaupréttur á landinu, sé sú að það standi til að sækja um ívilnanir til íslenska ríkisins í samræmi við lög.
„Ef búið er að fara af stað í verkefnið áður en umsóknir eru lagðar inn, fást ekki þær ívinlnanir,“ segir Gunnar. „Við gátum því ekki byrjað á því að kaupa landið.“
Þarf að skila öllu inn til ráðuneytisins
Ekki liggur fyrir hverjir standa að baki hollenska fjárfestingasjóðnum sem leggja til fé í verkefnið en Gunnar segir að um leið og formlegt umsóknarferli fari af stað til íslenskra stjórnvalda vegna ívilnana, verði það allt saman upplýst.
„Við höfum ekki haft áhyggjur af því að upplýsa neitt þegar við sækjum um ívilnanir,“ segir hann og bendir þar á reglur iðnaðarráðuneytisins sem lúta að slíkum umsóknum. Það þurfi að skila inn viðskiptaáætlunum, rekstraráætlunum, upplýsingum um alla eigendur og hvaðan féð kemur sem eigi að fara í verkefnið.
Ekki hægt að sækja um leyfi fyrirfram
„Umræðan í kring um þetta fór gríðarlega hratt af stað. Fólk virðist halda að við höfum ætlað að byggja fyrst og spyrja svo, sem er algjörlega út úr kortinu.“ segir hann. „Staðreyndin er sú að það er ekki hægt að sækja um leyfi fyrirfram í svona verkefni, en það þarf auðvitað að vinna þetta í samvinnu við bæjaryfirvöld á staðnum og í fullri sátt og samvinnu við heilbrigðisyfirvöld.“
Fram hefur komið að hvorki landlæknir né heilbrigðisráðherra hafi vitað af áformum um byggingu spítalans fyrr en þeir heyrðu af því í fjölmiðlum. Gunnar segir að áætlað sé að fá hingað alþjóðavottunaraðila til samvinnu frá upphafi og landlæknir verði stöðugt uppfærður um gang mála.
„Þegar þetta verður tilbúið verður búið að uppfylla alla staðla og þá getur landlæknir votta þetta með íslenskum lögum,“ segir hann. „Það er enginn að fara að henda 50 milljörðum í svona verkefni án þess að fylgja íslenskum lögum.“
Skilur vel að fólk sé hrætt við huldumenn
Þá liggi fyrir boð hjá heilbrigðisráðherra og heilbrigðisyfirvöldum til þess að fara yfir málið.
„Þetta er algjört lykilatriði. Ég skil vel að fólk sé hrætt við huldumenn sem enginn veit hver er, nýbúið að upplifa hrun með huldumönnum, Wintris og Panamaskjölum. Þetta hefur náttúrulega verið með ólíkindum“ segir hann. Spurður hvers vegna það sé ekki upplýst strax hverjir fjárfestarnir séu segir hann að það sé talið eðlilegt að upplýsa viðeigandi yfirvöld um það fyrst.
„Bankar geta ekki upplýst um viðskiptavini sína nema við viðeigandi yfirvöld. Það er í raun og veru einfalda svarið og það er ekkert óviðeigandi við það,“ segir hann. „Þegar við sækjum um ívilnanir verður allt upplýst.“
Getur verið að umræðan drepi verkefnið
Haraldur bendir á að það sé verið að koma með gífurlegt fjármagn af peningum inn í landið til verkefnisins, um 50 milljarða króna, og það þurfi að fara í gegn um Seðlabankann og það taki tíma að fara í gegn.
„Þess vegna var þessi frestur gefinn,“ segir hann. Spurður hvort hann sé bjartsýnn að spítalinn verði að veruleika segist hann hvorki bjartsýnn né svartsýnn. Mikil umræða hafi farið af stað í kring um fregnir af spítalanum, bæði í fjölmiðlum, meðal almennings og hjá stjórnmálamönnum.
„Svo getur vel verið að umræðan sem hefur skapast í kring um þetta drepi verkefnið. Það getur vel farið svo.“