Heilbrigðisvandamál sem verða til vegna hreyfingarleysis kosta heiminn að minnsta kosta 67,5 milljarða Bandaríkjadala á ári, eða sem samsvarar rúmlega átta þúsund milljörðum íslenskra króna.
Þetta er niðurstaða nýrrar rannsóknar sem birtist í hinu virta Lancet læknatímariti í gær. Tímaritið gefur nú út sérstaka greinaröð um hreyfingu og hreyfingarleysi til þess meðal annars að hvetja ráðamenn til þess að gera gangskör í hreyfingu. Án mikilla breytinga munu markmið Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar um 10 prósenta minnkun hreyfingarleysis fyrir árið 2025 ekki ganga eftir.
Rannsóknin á kostnaði heilsufarsvandamálanna byggir á gögnum frá 142 ríkjum sem hýsa 93% allrar heimsbyggðarinnar. Upphæðin, 67,5 milljarðar dala, átti við um árið 2013. Kostnaðurinn skiptist þannig að 53,8 milljarðar fóru í heilbrigðisþjónustu og 13,7 milljarðar komu til vegna lélegri framleiðni.
Rannsakendurnir segja hins vegar að upphæðin sé líklega vanmetin, þar sem aðeins var skoðaður kostnaður við fimm sjúkdóma, hjarta- og æðasjúkdóma, sykursýki 2, brjósta- og ristilkrabbamein. Þetta eru því líklega mjög hóflegar áætlanir að mati rannsakenda.
Þetta er í fyrsta skipti sem reynt er að meta kostnaðinn við faraldur hreyfingarleysis, en hreyfingarleysi er talið tengjast fimm milljónum dauðsfalla með beinum hætti á hverju ári.
Klukkutími á dag fyrir kyrrsetufólk
Fólk sem vinnur kyrrsetustörf og situr við í átta klukkustundir á dag getur jafnað út slæm áhrif þess á heilsuna með klukkustundar hreyfingu á dag, samkvæmt annarri rannsókn í greinaröð Lancet, sem byggði á gögnum úr sextán rannsóknum á um milljón einstaklingum.
Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni á fólk að hreyfa sig í 150 mínútur á viku en nýja rannsóknin bendir til þess að fyrir marga sé það ekki nóg.
„Þú þarft ekki að stunda íþróttir, þú þarft ekki að fara í ræktinga. Það er í lagi að ganga rösklega, jafnvel á morgnanna, í hádeginu, eftir kvöldmat. Þú getur skipt þessu upp yfir daginn, en þú verður að gera þetta í minnst eina klukkustund,“ segir prófessorinn Ulf Ekelund, sem leiddi rannsóknina, við Guardian. Hann viðurkenndi að oft væri þetta erfitt fyrir fólk. „Það er ekki auðvelt að stunda hreyfingu í klukkutíma á dag en... meðalsjónvarpsáhorf fullorðinna í Bretlandi í dag eru þrjár klukkustundir og sex mínútur eða eitthvað slíkt, yfir þrír klukkutímar. Ég veit ekki hvort það er til of mikils ætlast að aðeins hluti þessara þriggja klukkutíma fari í líkamlega hreyfingu.“