EFTA dómstóllinn hefur dæmt Íslandi í óhag og átelur íslensk stjórnvöld fyrir að hafa ekki endurheimt ólögmæta ríkisaðstoð innan tilskilins tímafrests. Ísland þarf að borga allan málskostnað vegna málsins, sem snýst um ólögmæta ríkisaðstoð í formi ívilnunarsamninga við fimm fyrirtæki: Becromal, Verne, Íslenska kísilfélagið, Thorsil og GMR endurvinnsluna.
ESA, eftirlitsstofnun EFTA, komst að þeirri niðurstöðu fyrir tveimur árum að samningarnir fælu allir í sér ríkisaðstoð sem gengi gegn EES-samningnum. Stjórnvöldum á Íslandi var fyrirskipað að stöðva allar frekari greiðslur ríkisaðstoðar á grundvelli þessara fimm samninga og sjá til þess að öll sú aðstoð sem veitt hafði verið fram að því yrði endurgreidd innan fjögurra mánaða.
Það var fyrir 9. febrúar í fyrra. Þá var íslenskum stjórnvöldum gert að tilkynna eftirlitsstofnuninni hver heildarfjárhæð ólögmætrar ríkisaðstoðar hefði verið veitt og tilkynna hvernig ríkið hygðist endurheimta þessa fjárhæð.
Íslensk stjórnvöld uppfylltu enga af þessum kvöðum sem ESA hafði sett á og því ákvað stofnunin að stefna Íslandi fyrir EFTA dómstólinn vegna málsins síðastliðið haust. „Tafir á endurheimtu ólögmætrar ríkisaðstoðar viðhalda þeirri samkeppnisröskun sem aðstoðin hefur í för með sér. Það er óviðunandi að nærri ári eftir að endanleg ákvörðun stofnunarinnar lá fyrir hefur Ísland enn ekki stöðvað eða endurheimt ólögmæta ríkisaðstoð,“ sagði Sven Erik Svedman, forseti ESA, um málið þá.
Í tilkynningu frá atvinnuvegaráðuneytinu vegna dómsins segir að samningarnir við Kísilfélagið og Thorsil hafi aldrei komist til framkvæmda, og því hafi aldrei verið veittir styrkir á grundvelli þeirra. Máli vegna Verne sé lokið og búið sé að ná samkomulagi í máli Becromal. Þá sé samkomulag um endurheimt styrkja til GMR Endurvinnslu á lokastigum.