Donald Trump, forsetaefni Repúblikanaflokksins, segir að það sé möguleiki á því að kosningasvindl verði stundað í forsetakosningunum í Bandaríkjunum í nóvember. Hann segist óttast að svo verði og hvatti repúblikana til að vera vel á verði, „annars verður þetta tekið frá okkur.“
Trump sagði þetta á kosningafundi í Columbus í Ohio og endurtók þetta svo í viðtali á Fox News í gærkvöldi. Roger Stone, ráðgjafi Trump til langs tíma, ýtti einnig undir þetta. „Ég held að við höfum víðtækt kosningasvindl, en það fyrsta sem Trump þarf að gera er að byrja að tala um það stanslaust. Hann þarf að segja til dæmis: Ég leiði í Flórída, skoðanakannanirnar sýna það. Ef ég tapa í Flórída, þá vitum við að það er kosningasvindl í gangi.“
Í gærkvöldi var Trump svo kominn á kosningafund í Pennsylvaníu þar sem hann kallaði keppinaut sinn um forsetastólinn, Hillary Clinton, djöfulinn. Hann hefur undanfarið sagt að Bernie Sanders, sem laut í lægra haldi fyrir Clinton hjá demókrötum, hafi gert samkomulag við djöfulinn með því að styðja hana. Í gær fór hann í fyrsta sinn lengra og sagði beint út: „Hún er djöfullinn.“
Trump hefur hins vegar alfarið forðast að svara mikilli gagnrýni á ummæli hans um hjón sem héldu ræðu á flokksþingi demókrata í síðustu viku og lýstu þar dauða sonar síns, sem var hermaður. Hann hét Humayun Khan og var 27 ára gamall bandarískur múslimi sem fórnaði lífi sínu í Afganistan fyrir tólf árum síðan. Faðir hans, Khizr Khan, gagnrýndi Trump harðlega í ræðunni, og sagði meðal annars að ef Trump hefði fengið að ráða hefði fjölskyldan aldrei komið til Bandaríkjanna. Trump segði niðrandi hluti um múslima, um konur, um minnihlutahópa. Hann spurði hvort Trump hefði yfirhöfuð lesið stjórnarskrá Bandaríkjanna.
Fyrstu viðbrögð Trump voru að gagnrýna að Khizr Khan hefði einn flutt ræðuna, en kona hans Ghazala hafi staðið við hlið hans. „Hún hafði ekkert að segja. Hún líklega, kannski mátti hún ekki segja neitt. Seg þú mér.“ Ghazala kom í viðtal degi síðar og greindi frá því að hún hafi einfaldlega ekki treyst sér til að tala um son sinn á þessum vettvangi, þar sem enn þann dag í dag bresti hún í grát við að sjá myndir af honum.
Trump sagði einnig að hann hefði fært fórnir svipaðar þeim sem hjónin og sonur þeirra hefðu fært.
Trump hefur verið harðlega gagnrýndur bæði af samflokksmönnum og pólitískum andstæðingum fyrir framkomu sína í garð hjónanna.