Yfir hundrað manns sækjast eftir því að vera á framboðslistum Pírata í Reykjavíkurkjördæmunum tveimur og Suðvesturkjördæmi, en sameiginlegt prófkjör fyrir þessi þrjú kjördæmi hefst í dag. Prófkjör í Suðurkjördæmi hefst líka í dag, en ríflega tuttugu manns taka þátt í því.
Prófkjöri er lokið í einu kjördæmi hjá flokknum, en það er í Norðausturkjördæmi. Þetta eru fyrstu prófkjörin sem haldin eru fyrir kosningarnar sem boðað hefur verið að verði haldnar í haust, þótt ekki sé ljóst hvenær af þeim verður enn. Prófkjör í Norðvesturkjördæmi hefst í næstu viku, en sautján hafa lýst yfir framboði þar.
Vinstri-græn hafa einnig valið sinn lista í Norðausturkjördæmi, en aðrir listar flokka eru ekki tilbúnir. Allir flokkar hafa þó hafið vinnu við uppstillingu eða prófkjör.