„Eins og ég les í stöðuna þá er stórum hluta af þessari viðbótartraffík til Íslands eiginlega troðið inn á þessar óskráðu þjónustur sem engar reglur gilda um. Þetta gagnast ekki neinum nema tækifærissinnunum sem venjulega þéna mest, en með litlum ábata, vegna þess að gestirnir eru féflettir og á sama tíma fær íslensk ferðaþjónusta á sig slæmt orð,“ segir Clive Stacey, framkvæmdastjóri ferðaskrifstofunnar Discover the World, í viðtali við vefsíðuna Túristi.is.
Hann segir að vegna þess að svo mörg flugfélög fljúgi til Íslands hafi þau orðið að lækka fargjöld til að fylla vélarnar, og það útskýri verðlækkun á flugi milli Íslands og Bretlands milli ára. „Á sama tíma eru hótelin fullbókuð mestan hluta ársins og því verður fólk að notast við Airbnb sem gerir búsetu í miðborg Reykjavíkur dýrari fyrir íbúana. Og bílaleigufyrirtækin hagnast varla því það eru svo margir aðilar sem starfa ólöglega á þeim markaði og sambærileg staða virðist vera á mörgum öðrum sviðum í íslenskri ferðaþjónustu.“ Því sé svo miklu „troðið“ inn í óskráða þjónustu.
„Ég átta mig á að þetta eru stór orð en ég tel mjög mikilvægt að það verði komið á skipulagi til að takast á við þetta mikla innstreymi án þess þó að eyðileggja helstu ástæður þess að fólk elskar að koma til Íslands.“
Stacey segist hafa skipulagt ferðir til Íslands allt frá árinu 1972, og stofnaði sína eigin ferðaskrifstofu árið 1984 sem er nú stærsti einstaki skipuleggjandi ferða til Íslands í öllum heiminum. „Þó ég sé mjög ánægður með að Ísland njóti nú verðskuldaðrar athygli sem mikilfenglegur áfangastaður þá hef ég miklar áhyggjur af stefnuleysi í hvernig á að gera gestum kleift að upplifa til hins ýtrasta alls þess einstaka sem landið hefur upp á að bjóða.“
Ef ferðafólk eigi að njóta fyrstu og síðustu kynna sinna af landinu þá verði að bjóða upp á flughöfn sem geti tekið á móti öllum fjöldanum. „Ef þú vilt að fólk meti helsti ferðamannastaði landsins þá verður að hafa stjórn á þeim fjölda sem þangað kemur. Og ef þú lofar fólki víðáttu þá máttu ekki bara leyfa þúsundum manna að streyma inn á viðkvæm svæði sem þola ekki svona mikinn ágang. Með öðrum orðum þá verður að setja reglur til að vernda þessi verðmæti og hið verðmæta vörumerki Iceland,“ segir Stacey við Túrista.
Hann segir að lítið hafi verið gert þrátt fyrir að mikið hafi verið rætt um hvernig eigi að taka á ferðamannastraumnum. „Ríkisstjórn Íslands verður að ráðast í aðgerðir og vinna með öllu hagsmunaaðilum í að búa til almennilegt skipulag sem gerir ferðafólki mögulegt að njóta íslenskrar náttúru og þéttbýlis án þess þó að skerða lífsgæði íbúanna sjálfra."
Mannmergðin við vinsælustu ferðamannastaðina er ennþá meira vandamál í dag en fyrir ári síðan. „Hvort að þeir sem halda um stjórntaumana, hverjir sem það nú eru, hafi gert eitthvað í málunum er erfitt að segja en við fáum fleiri kvartanir varðandi þetta atriði núna en áður. Það á líka við um Flugstöð Leifs Eiríkssonar en þar eru greinilega alltof margir farþegar samankomnir á nokkrum dagspörtum, en hvort það sé óhóflegt, miðað við alla flugumferðina, er erfitt að segja.”