Óskar Jósefsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Stjórnstöðvar ferðamála. Hann hefur starfað við stjórnendaráðgjör í mörg ár, bæði á almennum og opinberum markaði, að því er segir í tilkynningu frá atvinnuvegaráðuneytinu.
Í tilkynningunni er haft eftir Óskari að starfið sé mjög áhugavert og mörg spennandi verkefni bíði. „Innleiðing Vegvísis er komin vel af stað og mikilvægt að halda áfram að vinna að enn frekari samhæfingu og samþættingu verkefna á sviði ferðamála. Flest bendir til þess að áfram verði öflugur vöxtur í ferðaþjónustu. Við Íslendingar stöndum frammi fyrir ýmsum áhugaverðum áskorunum við að byggja upp sem besta umgjörð um þessa atvinnugrein og með þeim hætti að um hana ríki sátt í samfélaginu,“ er haft eftir honum.
Óskar stofnaði ráðgjafarfyrirtækið Advance ehf. árið 2008 og hefur rekið það síðan, auk þess að sinna ýmsum öðrum verkefnum. Hann gegndi til skamms tíma starfi forstjóra hjá Landssíma Íslands hf. Hann var forstjóri Ístaks hf. og framkvæmdastjóri upplýsinga- og tæknisviðs Kaupþings banka, auk þess sem hann stýrði ráðgjafastarfsemi PwC um nokkura ára skeið. Óskar er verkfræðingur með M.Sc. gráðu í iðnaðar- og rekstrarverkfræði frá Danmörku.
Hörður Þórhallsson, sem ráðinn var framkvæmdastjóri Stjórnstöðvar ferðamála í fyrrahaust, hætti eftir hálfs árs starf. Hörður var ráðinn í starfið á sama tíma af atvinnuvegaráðuneytinu. Þar var hann með verktakasamning og fékk 1.950 þúsund krónur í heildarlaun á mánuði. Stjórn Stjórnstöðvarinnar tók ákvörðun um ráðningu hans og staða framkvæmdastjóra Stjórnstöðvar ferðamála var ekki auglýst. Ráðningarferlið þótti mjög umdeilt og var gagnrýnt víða í samfélaginu. Ragnheiður Elín sagði í viðtali við Spegilinn í á þeim tíma að nýskipuð stjórn Stjórnstöðvarinnar hafi viljað „þungarvigtarmann" í stöðu framkvæmdastjóra. Þau hafi orðið þess áskynja að Hörður væri á lausu og Ragnheiður Elín sagði að hann hefði uppfyllt þau skilyrði sem sett hefðu verið fyrir starfinu.
Tilkynnt var um stofnun Stjórnstöðvar ferðamála með viðhafnarkynningu í Hörpu í byrjun október 2015. Hlutverk Stjórnstöðvarinnar átti að verða að samhæfa aðgerðir og útfæra leiðir í samvinnu við opinberar stofnanir og hagsmunaaðila í ferðaþjónustu. Stjórnstöðinni var ætlað að starfa í fimm ár eða til ársloka 2020. Hún var sett á laggirnar á grundvelli samkomulags milli ríkistjórnarinnar, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Samtaka ferðaþjónustunnar. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þáverandi forsætisráðherra, skipaði í tíu fulltrúa í stjórn Stjórnstöðvarinnar. Fjórir ráðherrar eiga þar sæti, fjórir fulltrúar frá Samtökum ferðaþjonustunnar og tveir fulltrúar Sambands íslenskra sveitarfélaga. Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, er formaður Stjórnstöðvarinnar.