Árni Johnsen, fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins, vill komast aftur á þing fyrir flokkinn og býður sig fram í eitt af forystusætunum í Suðurkjördæmi. Þetta kemur fram í aðsendri grein Árna í Morgunblaðinu í dag.
Árni var þingmaður um langt skeið, með hléum, allt þar til ársins 2013. Hann gaf kost á sér í prófkjörinu fyrir síðustu kosningar en hlaut ekki náð fyrir augum kjósenda í prófkjörinu. Hann segir að núverandi þingmenn flokksins og þau sem náðu kjöri í efstu sætin, Ragnheiður Elín Árnadóttir, Unnur Brá Konráðsdóttir og Ásmundur Friðriksson, hafi unnið „skipulega að því að fæla fólk frá því að kjósa mig.“ Þau hafi „rottað“ sig saman og haft erindi sem erfiði. „Þessi vinnubrögð eru ekki ólögleg en þau eru algjörlega siðlaus og ódrengileg á versta máta,“ skrifar Árni í Morgunblaðið.
Hann segir að þingmennirnir þrír í kjördæminu hafi ekki gert neitt undanfarin þrjú ár sem komi Suðurkjördæmi til góða. „En tríóið leyfði sér að bregða fyrir mig fæti og fella mig á hlaupabrautinni með 40 mál í farteskinu, stór og smá varðandi Suðurkjördæmi og landið allt.“
Árni segist ekki vera tapsár og hann sé ekki að leita að samúð, heldur sanngirni og réttlæti.
Árni er 72 ára gamall, og segir að hann sé því „nánast táningur miðað við aldur í alþjóðastjórnmálum.“
Árni var dæmdur í tveggja ára fangelsi árið 2003 fyrir fjárdrátt og umboðssvik í opinberu starfi, mútuþægni og rangar skýrslur til yfirvalda. Hann lét af störfum alþingismanns eftir að málið kom upp en kom aftur inn á þing árið 2007 og sat til ársins 2013.