Birgitta Jónsdóttir, þingflokksformaður Pírata, og fleiri samflokksmenn hennar hafa rætt um að láta útbúa sérstakt kosninga-„pokéstop“ til þess að fá ungt fólk til þess að mæta á kjörstað í komandi Alþingiskosningum.
Kosningaþátttaka ungs fólks hefur farið dvínandi undanfarinn áratug og til að mynda kaus einungis helmingur fólks á aldrinum 18 til 29 ára í síðustu sveitarstjórnarkosninum árið 2014.
Fyrirtækið Unity Techologies, sem er að hluta til í eigu Íslendingsins og tölvuleikjafrömuðarins Davíðs Helgasonar, hannar meðal annars umhverfi fyrir Pokémon Go, eins og fram kom á RÚV. Pokémon Go er vinsælasti símatölvuleikur heims um þessar mundir. Birgitta telur að Unity Technologies gætu mögulega tekið þátt í verkefninu, í ljósi þess að eigandinn er Íslendingur. Leikurinn miðar að því að safna Pokémon fígúrum í símann sinn. Skrímslin birtast á skjánum hjá þeim sem veiðir og þarf síminn að vera tengdur við GPS tækið til að spilarar geti gengið um eftir leiðbeiningum á korti í símanum.
„En ef af því verður ekki, þá væri frábært ef allir flokkarnir kæmu sér saman um að borga fyrir svona tálbeitur til að lokka ungt fólk á kjörstað,“ segir hún. „Það gætu verið poke-stops inni á kjörstöðum og ég held að þetta gæti verið sniðug leið til að fá ungt fólk til að taka þátt í lýðræðinu sínu.“
Enn liggur þó ekki fyrir hvenær komandi kosningar verða. Framsóknarmenn hafa sagt að kjördagur verði ekki ákveðinn fyrr en þing verður komið saman á ný um miðjan ágúst, en formaður Sjálfstæðisflokksins vill að dagsetning verði ákveðin sem fyrst.