Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra, segir að búið hafi verið að undirbúa kynningu á afnámi verðtryggingar. Kynna hefði átt „mjög flott plan“ í Hörpu í september. Þetta kom fram í viðtali við Sigmund Davíð í Bítinu á Bylgjunni í morgun.
„Fyrri part árs 2014 gerði ríkisstjórnin samþykkt um með hvaða hætti yrði unnið að afnámi verðtryggingar...Fjármálaráðuneytið átti þar að klára ákveðin verkefni, það dróst nú langt fram yfir þann tíma sem ríkisstjórnin hafði samþykkt, en það voru rök fyrir því. Þau rök voru að það væri eðlilegt að setja þetta í samhengi við aðra stóra hluti sem verið væri að vinna að, eins og haftamál og húsnæðismál,“ sagði Sigmundur Davíð.
„Nú er þessi staða komin upp að það sér til lands í öllum þessum forsendumálum þannig að það er ekkert því til fyrirstöðu að klára þetta verðtryggingarmál. Við vorum búin að leggja drög að því að halda mikla kynningu í Hörpu, í september þar sem við myndum kynna mjög flott plan í þessu verðtryggingarmáli. Svo veit ég ekki hvernig það mál hefur þróast, ég hef auðvitað reynt að fylgjast með því en hef ekki verið alveg nógu hrifinn af framvindunni þar eftir að ég steig út úr þessu um tíma. En þetta er mál sem ríkisstjórnin verður að klára því það er búið að búa til forsendurnar fyrir þessu.“
Sigmundur Davíð var ekki spurður að því í hverju þetta plan hafi átt að felast. Hann sagði Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflokkinn ekki hafa verið sammála um verðtryggingarmálin og tók undir það sem Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður framsóknar, sagði um síðustu helgi, að til greina komi að Framsóknarflokkurinn leggi fram frumvarp um afnám verðtryggingarinnar framhjá Sjálfstæðisflokknum ef „þetta gangi ekki nógu hratt hjá ríkisstjórninni.“
Sigmundur Davíð fór um víðan völl í viðtalinu í morgun. Hann sagði meðal annars að honum sé „alveg sama hvenær kosið er þannig séð, svo framarlega sem ríkisstjórnin er búin að klára að standa við sín loforð.“