Fjármálafyrirtæki sem hafa lokið slitameðferð hafa fengið undanþágur frá gjaldeyrislögum vegna innflutnings á 1.525.649.868 íslenskum krónum, gjaldeyrisviðskiptum og/eða fjármagnsflutningi á milli landa í erlendum gjaldeyri fyrir rúma milljón punda, tæplega 37 milljónir sænskra króna, 12,5 milljónir Bandaríkjadala, 5,7 milljónir norskra króna, tæplega 58 milljónir evra, tæplega 40 milljónir danskra króna, og 12 milljónir kanadískra dala og að andvirði ríflega 116 milljarða íslenskra króna.
Þetta kemur fram í svari Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra við fyrirspurn frá Helga Hjörvar um undanþágur frá gjaldeyrishöftum. Helgi spurði um undanþágurnar í mars síðastliðnum, en svar var birt í dag.
Fjármálaráðuneytið leitaði til Seðlabankans til að fá svör, vegna þess að ráðuneytið segist ekki búa yfir þessum upplýsingum nema að takmörkuðu leyti.
Seðlabankinn hefur einnig veitt lífeyrissjóðum undanþágur frá gjaldeyrislögum vegna innflutnings á ríflega 96 milljörðum króna og vegna gjaldeyrisviðskipta og/eða fjármagnsflutninga á milli landa í erlendum gjaldeyri fyrir rúmlega 18 milljónir evra og jafnvirði 27 milljarða króna.
Seðlabankinn upplýsir ekki um undanþágur til fjármálafyrirtækja sem eru í slitameðferð. Bankinn segist hafa ríkar trúnaðarskyldur gagnvart þeim sem óska eftir undanþágum frá gjaldeyrislögum og hann hafi almennt þá reglu að birta ekki upplýsingar ef færri en þrír aðilar eru undir. Þar sem aðeins tvö fjármálafyrirtæki, Landsvaki og Saga Capital, eru í slitameðferð samkvæmt upplýsingum frá fjármálaeftirlitinu sé ekki hægt að veita slíkar upplýsingar.
Forgangskröfuhafar föllnu bankanna hafa fengið undanþágur vegna fjármagnsflutnings milli landa upp á tæpar 32 milljónir evra, 5 milljónir punda, 70 milljónir norskra króna og tæplega 13 milljónir bandaríkjadala. Þá eru ekki teknar með í reikninginn undanþágur sem voru veittar vegna Icesave.
Erlendir eigendur og kröfuhafar fyrirtækja sem hafa lokið nauðasamningi hafa fengið undanþágur upp á 557 milljónir krónar og 5,4 milljarða króna í erlendum gjaldeyri.
Ekki liggur fyrir hversu háar upphæðir undanþágur til annarra innlendra aðila eru né heldur til annarra erlendra aðila. Seðlabankinn segir að slík úrvinnsla gagna væri mjög umfangsmikil og tímafrek.