Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra og ritari Framsóknarflokksins, segist ekki hafa tekið ákvörðun um hvort hún gefi áfram kost á sér til forystustarfa innan flokksins. Spurð hvort hún útiloki að bjóða sig fram gegn sitjandi formanni, Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, segist hún ekki útiloka það.
„Ég hef áhuga á að halda áfram í pólitík,“ segir Eygló í samtali við Kjarnann. „Ég ætla að vega og meta hvað það er sem við innan flokksins viljum gera.“
Sigmundur kom fram í síðustu viku þar sem hann tilkynnti endurkomu sína í stjórnmálin. Hann ætlar að halda áfram að vera formaður og hefur heldur ekki útilokað að hann snúi aftur í ríkisstjórn.
Spurð hvort Eygló styðji Sigmund Davíð áfram sem formann segist hún hafa gert það.
„Hann er formaður og ég styð hann. Hann hefur gefið það skýrt til kynna að hann vilji halda áfram,“ segir hún. „Það er búið að boða til haustfundar miðstjórnar Framsóknarflokksins og á þeim fundi verður tekin ákvörðun um hvort flokksþing verði haldið. Haustfundurinn hefur ákveðið verkefni og það er í höndum miðstjórnarmanna að ákveða hvort flokksþing verði haldið fyrir kosningar eða ekki.“
Formaður Framsóknarflokksins er líka formaður miðstjórnar, en í henni eiga sæti um 200 fulltrúar. Einn fulltrúi er kjörinn fyrir hverja 100 félagsmenn í hverju kjördæmi eða brot úr þeirri tölu umfram 50, er fram kemur á vefsíðu Framsóknarflokksins. Þessir fulltrúar skulu kosnir á kjördæmisþingum til eins árs í senn eftir reglum sem hlutaðeigandi kjördæmissamband setur. Þriðjungur fulltrúanna hið minnsta skal vera úr hópi ungs framsóknarfólks, það er undir 35 ára aldri. Jafnmargir varamenn skulu kjörnir á sama hátt. Svo eru einnig alþingismenn og ráðherrar, landsstjórn og framkvæmdastjórn, fyrrverandi þingmenn og ráðherrar ef þeir eru enn félagsmenn, aðalmenn í sveitarstjórnarráði, stjórn og varastjórn launþegaráðs og svo aðrir sjö fulltrúar kosnir af landsstjórn.