Frumvarp sem lagt verður fyrir Alþingi á að draga úr vægi verðtryggingar í íslensku efnahagslífi. Þetta var haft eftir Bjarna Benediktssyni, fjármála- og efnahagsráðherra, í fréttum Stöðvar 2 í kvöld. Verðtrygging verður ekki afnumin af þeirri ríkisstjórn sem situr nú. Bjarni segist aldrei hafa ætlað að fara í „einfalt afnám verðtryggingar“ eins og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, sagði á dögunum að væri ein forsenda þess að kosið yrði í haust.
Frumvarp um breytingar á húsnæðis- og lánamálum verður lagt fyrir Alþingi „í tengslum við“ það þegar þing kemur saman á ný seinnipartinn í ágúst, að sögn Bjarna. Ekki hafi verið ákveðið hvenær frumvarpinu verði deilt á Alþingi. Í þessu frumvarpi er ætlunin að minnka vægi verðtryggingar til þess að auðvelda fólki að greiða niður höfuðstól húsnæðislána og fjármagna ný lán.
„Aðgerðir í húsnæðismálum og lánamálum sem tengjast verðtryggingu eru mál sem við höfum verið að skoða,“ sagði Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra í viðtali á tröppum Stjórnarráðsins eftir ríkisstjórnarfund í morgunn. Var það fyrsti ríkisstjórnarfundurinn sem haldinn hefur verið í mánuð.
„Það er ekki hægt að segja að við séum að fara í einfalt afnám verðtryggingar. Það get ég ekki sagt. Ég hef aldrei talað fyrir því að á íslandi verði hægt, með einu pennastriki, að afnema verðtryggingu,“ sagði Bjarni.
Greint var frá því í janúar að unnið hafi verið að frumvarpi um breytingar á verðtryggðum lánum í fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Þær breytingar áttu að þrengja að 40 ára jafngreiðslulánum og fara með þau niður í 25 ár.
Í útvarpsviðtali á dögunum sagði Sigmundur Davíð að þegar hann hafi sagt af sér sem forsætisráðherra hafi verið búið að undirbúa kynningu á afnámi verðtryggingarinnar. Kynna hefði átt „mjög flott plan“ í Hörpu í september á þessu ári. Hann segir að nú sé kominn upp sú staða að ekkert standi í vegi fyrir því að „klára þetta verðtryggingarmál“.
„Fyrri part árs 2014 gerði ríkisstjórnin samþykkt um með hvaða hætti yrði unnið að afnámi verðtryggingar...Fjármálaráðuneytið átti þar að klára ákveðin verkefni, það dróst nú langt fram yfir þann tíma sem ríkisstjórnin hafði samþykkt, en það voru rök fyrir því. Þau rök voru að það væri eðlilegt að setja þetta í samhengi við aðra stóra hluti sem verið væri að vinna að, eins og haftamál og húsnæðismál,“ sagði Sigmundur Davíð.
Hann sagði Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflokkinn ekki hafa verið sammála um verðtryggingarmálin og tók undir það sem Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður framsóknar, sagði um síðustu helgi, að til greina komi að Framsóknarflokkurinn leggi fram frumvarp um afnám verðtryggingarinnar fram hjá Sjálfstæðisflokknum ef „þetta gangi ekki nógu hratt hjá ríkisstjórninni.“