Markaðsvirði félaga sem skráð eru með hlutabréf í kauphöll Íslands, bæði á aðalmarkað og First North, dróst saman um 77 milljarðar króna frá lokum aprílmánaðar og fram að síðustu mánaðarmótum. Það þýðir að 7,4 prósent af markaðsvirði félaganna hefur horfið á þremur mánuðum og heildarvirði þeirra farið úr 1.043 milljörðum króna í 966 milljarða króna. Markaðsvirði Icelandair Group hefur fallið mest á tímabilinu, eða um 41 milljarð króna. Þetta kemur fram í viðskiptayfirlitum fyrir Kauphöll Íslands sem birt eru mánaðarlega.
Mikil vöxtur á undanförnum árum
Íslenskur hlutabréfamarkaður hefur vaxið hratt á undanförnum árum. Í byrjun árs 2013 var heildarmarkaðsvirði þeirra félaga sem skráð voru á hann 436 milljarðar króna. Þremur árum síðar, í lok árs 2015, var virði þeirra orðið 1.049 milljarðar króna. Skráðum félögum á markaði hefur fjölgað síðan þá og útskýrist virðisaukningin að einhverjum leyti vegna þeirra. Alls eru nú 20 félög skráð, þar af 16 á aðalmarkaði. Þrjú ný félög, fasteignafélögin Eik og Reitir og fjarskiptarisinn Síminn, voru skráð á markað í fyrra.
En nýskráningar útskýra alls ekki alla virðisaukningu. Úrvalsvísitala Kauphallarinnar, sem er samsett af þeim átta félögum sem hafa mestan seljanleika innan kauphallarinnar hverju sinni, hefur hækkað mjög á undanförnum árum. Frá byrjun árs 2013 og til loka síðasta árs hækkaði hún um 73 prósent. Á árinu 2015 einu saman fór hún upp um 49 prósent. Það sem af er ári hefur hins vegar heldur sígið á ógæfuhliðina. Frá lokum aprímánaðar, þegar hún náði sínum hæstu eftirhrunshæðum, hefur hún lækkað um tólf prósent.
Bréf Icelandair lækkað um 23 prósent
Það félag í kauphöllinni sem hefur lækkað mest á undanförnum mánuðum er Icelandair Group. Gengi bréfa félagsins var 36 krónur á hlut í byrjun maí en er nú 27,75 krónur. Bréfin hafa því lækkað um 23 prósent í verði á þremur mánuðum.
Í byrjun maí var markaðsvirði Icelandiar Group um 179 milljarðar króna. Í dag er það um 138 milljarðar króna. Því hafa um 41 milljarður króna af markaðsvirði félagsins horfið á tímabilinu. Alls má rekja rúmlega helming alls þess virðistaps sem orðið hefur hjá skráðum félögum í íslensku kauphöllinni á síðustu þremur mánuðum til Icelandair.