Danir hafa upplifað mikla uppsveiflu á fasteignamarkaði á síðustu árum, en frá árinu 2006 og fram á árið 2009 lækkaði verðið um 30 prósent. Skellurinn sem kom í efnahagslíf Dana – eins og flestra annarra ríkja – eftir hremmingar á alþjóðlegum fjármálamörkuðum haustið 2008, gerði stöðuna síðan enn verri og leiddi til vaxandi vanskila.
Undanfarin sjö ár hefur fasteignaverðið, ekki síst á Kaupmannahafnarsvæðinu, hækkað jafnt og þétt og er það nú komið yfir það sem hæst var árið 2006, að því er fram kemur í umfjöllun Bloomberg. Greinandi hjá bankanum Nykredit, Mira Lie Nielsen, segir að fátt bendi til þess að fasteignaverðið sé að fara lækka, en hún segir að nauðsynlegt sé að koma fólki í skilning um það, að verðið geti lækkað.
Í Kaupmannahöfn hefur fasteignaverðið hækkað um 9,4 prósent á einu ári, og segir Nielsen að staðan í borginni sé nú þannig, að fáir íbúar í borginni, sem ekki séu þegar komnir inn á markaðinn og hafi þannig hagnast á mikilli hækkun fasteignaverðs, geti keypt hefðbundnar íbúðir á markaðnum. „Þetta háa verð miðsvæðis er farið að hafa áhrif til minni umsvifa (damping role) á markaðnum,“ segir Nielsen í viðtali við Bloomberg.
Nykredit er með um 40 prósent markaðshlutdeild á fasteignamarkaði í Danmörku, og hafa greinendur bankans bent á að hættumerki séu á fasteignamarkaði, þar sem vextir séu óvenjulágir í augnablikinu, eða alveg við núllið. Þetta geti leitt til þess að fjöldi fólks sem geti keypt íbúð núna, gæti lent í vanda ef vextir myndu hækka á nýjan leik.
Reglubreytingar sem miða að því að koma í veg fyrir ójafnvægi á fasteignamarkaði hafa verið innleiddar í danska fjármálakerfið, bæði með lögum og breytingum á skilmálum sem bankar hafa sett fyrir lánum. Þær miða að því að koma í veg fyrir að fólk geti fengið lán til að kaupa íbúð, sem síðan lendir fljótt í vanskilum. Slíkt gerðist á árunum 2004 til 2007 í Danmörku, eins og víða annars staðar. Þá var mögulegt að fá 100 prósent fasteignalán, eins og föllnu bankarnir gerðu hér á landi, en hámarkslán í Danmörku er nú 95 prósent af kaupverði fyrstu eignar.
Hér á landi hefur þróun fasteignaverðs verið með svipuðum hætti og í Danmörku. Fasteignamarkaðurinn á höfuðborgarsvæðinu hefur einkennst af miklum verðhækkunum á undanförnum árum, eftir mikinn skell í aðdraganda og kjölfar hrunsins fyrir tæpum átta árum. Á undanförnum fjórum árum hefur verðið hækkað um 30 prósent að raunvirði, og mældist hækkunin í júní síðastliðnum 2,2 prósent, sem er mesta hækkun á einum mánuði frá því fyrir hrunið.
Flestar spár gera ráð fyrir áframhaldandi hækkun
fasteignaverðs, ekki síst vegna þess að of lítið framboð er af eignum, einkum
litlum og meðalstórum íbúðum, miðað við mikla eftirspurn. Auk þess hefur mikill vöxtur í ferðaþjónustu á undanförnum árum ýtt undir hækkun fasteignaverð, þar sem þúsundir íbúða hafa verið nýttar til útleigu fyrir ferðamenn.
Eins og Kjarninn greindi frá 6. júlí þá hafa íbúðir aldrei selst hraðar en á fyrri hluta þessa árs. Íbúðir eru að jafnaði talsvert skemur í sölu nú en á undanförnum tíu árum. Einungis tekur um sjö vikur (1,87 mánuð) að selja íbúðarhúsnæði miðað við veltu á fasteignamarkaði í apríl.