Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, segir að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hafi frekar valið að afla fjár til þess að bjarga bönkum og fjármálastofnunum, klára Hörpu og gera Vaðlaheiðargöng í stað þess að bjarga heilbrigðiskerfinu. Þetta skrifaði Kári á Facebook í gærkvöldi sem andsvar við andsvari Jóhönnu í gær. Kári skrifaði í gærmorgunn að ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna hafði holað heilbrigðiskerfið að innan. Jóhanna svaraði um hæl og sagði að Kári yrði að setja hlutina í rétt samhengi vilji hann láta taka sig alvarlega. Ríkisstjórnin hafi tekið við gríðarlega slæmu búi, eða „erfiðustu efnahagslegu skilyrði sem verið hafa í sögu lýðveldisins.“
Kári segir við þessu að efnahagur þjóðarinnar hafi verið slæmur og og ríkisfjármál í rusli.
„Og það hlýtur að hafa verið erfitt verk að taka við taumunum en þá vildu Jóhanna og hennar fólk og þá fengu þau. Það má vel vera að það séu til rök sem styðji þá skoðun að allt þetta hafi verið nauðsynlegra en að viðhalda velferðarkerfinu óskertu en ég kaupi þau einfaldlega ekki,“ skrifar hann.
Það breyti engu hvort Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafi hrósað Íslendingum fyrir niðurskurðinn, eins og Jóhanna benti á, þar sem hann líti á sjóðinn sem innheimtustofnun fyrir alþjóðlega lánardrottna.
„Ég er ekki í nokkrum vafa um að Jóhanna hefði viljað viðhalda velferðarkerfinu af því hún hefur um langan tíma verið málssvari þeirra sem minna mega sín en það er bara eitthvað sem gerist innan höfuðskelja íslenskra stjórnmálamanna þegar þeir setjast á valdastóla.“