Lykilstarfsmenn Fréttablaðsins ræddu möguleikann á því að leggja niður störf síðastliðinn föstudag og koma þannig í veg fyrir að blaðið kæmi út daginn eftir. Ástæðan var megn óánægja með þá ákvörðun Kristínar Þorsteinsdóttur, aðalritstjóra 365 miðla, að segja yfirmanni ljósmyndadeildar 365, Pjetri Sigurðssyni, upp störfum. Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag.
Pjetur hafði kvartað undan Kristínu við fyrrverandi mannauðsstjóra fyrirtækisins vegna meints eineltis. Mannauðsstjórinn, Unnur María Birgisdóttir, setti af stað formlega athugun á ásökunum Pjeturs en þegar Kristín komst að því að slík athugun stæði yfir var hún stöðvuð af yfirstjórn 365 og Pjetur sendur í leyfi. Unnur María hætti störfum í byrjun júní, eftir að hafa starfað hjá fyrirtækinu í hálft ár.
Í síðustu viku var Pjetri sagt upp störfum og starfsmenn á ritstjórn 365 síðan boðaðir á fund á föstudag með Kristínu þar sem hún fór yfir málið frá sínum bæjardyrum. Samkvæmt heimildum Kjarnans hélt hún því þar fram að ástæðan fyrir samskiptarörðuleikunum við Pjetur væru hans megin, ekki hennar og ásakaði hann um að vera í herferð gegn sér. Þessi málflutningur fór afar illa í starfsmenn, sérstaklega þar sem hann fékk ekki tækifæri til að segja sína hlið á málinu. Var í kjölfarið rætt um að leggja niður störf og koma í veg fyrir að Fréttablaðið, sem er stærsta dagblað landsins, kæmi út á laugardag.
Sendandi kallaður á hitafund með eigendum
Þess í stað ákváðu starfsmennirnir að senda frá sér yfirlýsingu vegna atburðanna. Hún var send út á þriðjudag og samkvæmt upplýsingum Kjarnans stóðu nær allir starfsmenn Vísis og Fréttablaðsins sem ekki hafa fjölskyldutengsl við aðalritstjórann og náðist í, að yfirlýsingunni. Í yfirlýsingunni er uppsögn Pjeturs sögð óverðskulduð. Þar eru einnig hörmuð „óásættanleg vinnubrögð aðalritstjóra og yfirstjórnar fyrirtækisins í aðdraganda uppsagnar Pjeturs og við kynningu á henni til samstarfsmanna hans.“ Yfirlýsingin var send til allra fjölmiðla, Ingibjargar Pálmadóttur stjórnarformanns og aðaleiganda 365, Sævars Freys Þráinssonar forstjóra 365 og Kristínar, aðalritstjóra fyrirtækisins.
Hún var send út af netfangi Jóns Hákons Halldórssonar, blaðamanns á Fréttablaðinu. Jón Hákon hefur starfað lengi hjá 365, með hléum. Hann var kallaður inn á hitafund með helstu eigendum 365 í gær vegna málsins. Samkvæmt heimildum Kjarnans voru bæði Ingibjörg Pálmadóttir og eiginmaður hennar, Jón Ásgeir Jóhannesson, á þeim fundi. Þar lýstu þau mikilli óánægju með yfirlýsinguna. Ekkert hefur náðst í, eða heyrst frá, Sævari Frey, forstjóra 365, frá því að yfirstandandi atburðarás hófst.
Ingibjörg sendi síðan starfsfólki ritstjórnar 365 miðla póst í gær. Þar sagði hún að faglegur ágreiningur milli yfirmanns og undirmanns hafi valdið uppsögn Pjeturs. Eigendur og yfirstjórn 365 hafi aðeins eitt að markmiði, að standa að vandaðri fjölmiðlun og afþreyingu og reka gott fyrirtæki. Mikilvægt sé að eigendur, stjórnendur og starfsmenn tali saman sem ein liðsheild. „Þá vil ég að lokum taka fram að 365 er fjölskyldufyrirtæki. Von mín er að við stöndum saman sem ein fjölskylda.“ Hægt er að lesa póstinn í heild sinni hér.
Kjarninn greindi frá því í gær að Fanney Birna Jónsdóttir, aðstoðarritstjóri Fréttablaðsins, hafi sagt upp störfum. Hún vildi ekki tjá sig um málið þegar eftir því var leitað en í Morgunblaðinu í dag er sagt að hún hafi vitað af, og stutt, yfirlýsingu starfsmanna Vísis og Fréttablaðsins. Aðstoðarritstjóri blaðsins ber í raun ábyrgð á daglegum rekstri Fréttablaðsins, þar sem aðalritstjóri fréttastofu 365, Kristín Þorsteinsdóttir, stýrir öllum einingum fréttastofunar. Þar falla einnig undir Vísir og fréttastofa Stöðvar 2, en starfsmenn hennar tóku ekki þátt í að senda út yfirlýsinguna vegna uppsagnar Pjeturs.
Síminn segist ekki vera að kaupa
Daginn áður en að yfirlýsingin var send út birti Eiríkur Jónsson frétt á heimasíðu sinni þar sem hann hélt því fram að Síminn væri að kaupa ljósvakamiðla 365. Hann sagði einnig að búið væri að finna kaupendur að Fréttablaðinu og Vísi. Síminn sendi frá sér fréttatilkynningu vegna þessa þar sem því var neitað að félagið hefði keypt ljósvakamiðla 365 og sagt að viðræður um slíkt stæðu ekki yfir.
Samkvæmt heimildum Kjarnans voru hugsanleg kaup skoðuð lauslega innan Símans fyrr á þessu ári en þá ákveðið að fylgja ekki þeirri skoðun eftir með kaupum. Það er hins vegar eitt verst geymda leyndarmál íslensks viðskiptalífs að 365 er til sölu og að helstu eigendur þess hafa reynt að selja fyrirtækið víða á undanförnum árum.