Formaður velferðarnefndar segir nauðsynlegt að ganga úr skugga um hvort íslensk lög geti tryggt að heilbrigðiskerfi landsins sé ekki ógnað. Áætluð bygging einkasjúkrahúss í Mosfellsbæ verður rædd á fundi velferðarnefndar í dag. Nefndin fær til sín fulltrúa frá velferðarráðuneytinu og Landlæknisembættinu til að fara yfir stöðuna. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, formaður nefndarinnar, segir í samtali við Kjarnann að nauðsynlegt sé að fá fram upplýsingar um hvernig málið blasi við heilbrigðisyfirvöldum og hvað sé fram undan.
„Við þurfum að ganga úr skugga um hvort raunin sé sú að yfirvöld geti ekki haft uppi neinar varnir ef þau telja að heilbrigðiskerfi landsins sé ógnað,“ segir Sigríður Ingibjörg. „Heilbrigðiskerfið er grunnstoð í öllum samfélögum og það er mikilvægt að lögin séu þannig að það sé ekki hægt að þróa kerfið í hvaða átt sem er eftir þörfum fjárfesta.“
Vildi ekki tjá sig um málið
Henri Middeldorp, framkvæmdastjóri Burbank Holdin BV, sem á meirihlutann í fyrirtækinu MCPB, sem stendur að framkvæmdinni, vildi ekki tjá sig um málið þegar Kjarninn náði tali af honum. Hann sagði að forsvarsmenn sjúkrahússins vildu bíða og sjá hvað yfirvöld segðu um málið, enda ætti málið að vera unnið í fullri samvinnu við þau.
Ætla að sækja um skattaívilnanir hjá stjórnvöldum
Áætlaður kostnaður við sjúkrahúsið er um 50 milljarðar króna. Um er að ræða einkarekið hátæknisjúkrahús fyrir efnameiri útlendinga, sem mun leggja sérstaka áherslu á meðferð við hjarta- og æðasjúkdómum. Kjarninn greindi frá því í lok júlí að engar framkvæmdir hefjist þó við sjúkrahúsið fyrr en forsvarsmenn þess eru búnir að sækja um skattaívilnanir hjá stjórnvöldum. Þetta sögðu Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri Mosfellsbæjar, og Gunnar Ármannsson, stjórnarmaður í MCPB, sem stendur að framkvæmdunum. Þá verða nöfn fjárfesta heldur ekki gerð opinber fyrr en umsagnirnar verða lagðar fram. Gögn um nöfn fjárfesta og mat frá viðskiptabanka verða lögð fyrir stjórnvöld og hafa forsvarsmenn sjúkrahússins frest til þess fram til 1. desember 2017.