Íslenska hugbúnaðarfyrirtækið Greenqloud hefur fengið nýja hluthafa í félagið, en það er athafnakonan Kelly Ireland. Hún leggur félaginu til fjórar milljónir Bandaríkjadala, jafnvirði tæplega 500 milljóna króna, og hefur Kelly einnig tekið sæti í stjórn félagsins.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Greenqloud.
Greenqloud hefur verið í örum vexti síðan félagið hætti rekstri hýsingarþjónustu og færði allan fókus á þróun hugbúnaðarins Qstack, sem stýrir og eykur aðgengi notenda að miðlægum tölvukerfum fyrirtækja. Síðan Qstack var kynnt árið 2014 hafa leiðandi fyrirtæki á heimsvísu hafið notkun á hugbúnaðnum t.d. í fjármála-, leikja- og tækniiðnaði, sem og í líftækni og heibrigðisþjónustu.
„Þessi félög nota Qstack til að einfalda rekstur upplýsingatæknikerfa sinna ásamt því að auka framleiðni, bæði rekstrarteyma og notenda þeirra kerfa. Þessum góða árangri hefur fylgt athygli frá þeim fyrirtækjum sem teljast leiðandi í hátækniiðnaðinum og leitt af sér samstarf Greenqloud við félög eins og Microsoft, VMware, Hewlett Packard Enterprise, Netapp og Hitachi," segir í tilkynningunni.
Í stjórn Greenqloud sitja nú Guðmundur Ingi Jónsson (stjórnarformaður); Kelly Ireland; Birgir Már Ragnarsson; Þorlákur Traustason og Egill Másson. Aðaleigendur fyrirtækisins eru Kelly Ireland; Keel Invest, Inc; Nýsköpunarsjóður Íslands og Novator ásamt smærri fjárfestum, stofnendum og starfsfólki. „Ég kynntist Greenqloud fyrir um 18 mánuðum síðan og hef fylgst vel með þróun félagsins síðan þá,” segir Kelly Ireland. „Greenqloud hefur sýnt að það er leiðandi fyrirtæki í hugbúnaðarþróun á þessum markaði. Varan þeirra Qstack, sýnir ekki aðeins að þau geta skilað nýjum lausnum hratt, heldur jafnframt að þau hafa áttað sig á því frá upphafi, að OpenStack mun ekki uppfylla þær kröfur skýjalausnar sem þarf til að geta þjónað upplýsingatæknideildum fyrirtækja,“ segir Kelly í tilkynningu.
Kelly Ireland er stofnandi og framkvæmdastjóri CB Technologies. Kelly hefur starfað í upplýsingatæknigeiranum síðan 1976 og starfað sem endursöluaðili síðan 1984. „Samfara miklum breytingum í upplýsingatækninni árið 2001, sá Kelly þörf á markaðnum fyrir virðisaukandi endursöluaðila með nýja nálgun og stofnaði í framhaldinu CB Technologies með breyttum áherslum en áður höfðu sést í þeim iðnaði. CB Technologies var ekki aðeins stofnað til að bjóða uppá fjölbreyttann stuðning við viðskiptavini félagsins, heldur einnig til að bjóða uppá starfsmannavænt umhverfi sem lagði áherslu á jafnvægi milli vinnu og einkalífs," segir í tilkynningu.