Guðmundur Steingrímsson, þingmaður og fyrrverandi formaður Bjartrar framtíðar, ætlar ekki að bjóða sig fram til Alþingis í haust. Frá þessu greindi hann á Facebook-síðu sinni í morgun.
„Þetta er búinn að vera viðburðarríkur sprettur og ómetanleg reynsla að hafa gegn þingmennsku á þessum krefjandi árum frá hruni,“ skrifar Guðmundur. „Ég er ánægður með það sem ég hef komið í verk. Vonandi ná sem flestar víðsýnar, bjartar og frjálslyndar manneskjur kjöri á þing. Hugsjónin lifir. Nú langar mig að fara að gera aðra hluti, beita mér á annan hátt. Takast á við nýjar áskoranir. Það er hollt fyrir heilann að breyta til, segja þeir.“
Þar með er ljóst að helmingur þingflokks Bjartrar framtíðar gefur ekki kost á sér fyrir flokkinn í næstu kosningum. Þau Róbert Marshall, Brynhildur Pétursdóttir og nú Guðmundur Steingrímsson hafa öll ákveðið að hætta. Hinn helmingurinn, formaðurinn Óttarr Proppé, Björt Ólafsdóttir og Páll Valur Björnsson, ætla öll að gefa kost á sér áfram. Björt framtíð ætlar að stilla upp á lista fyrir kosningarnar.
Guðmundur tók fyrst sæti á Alþingi árið 2007, þá sem varaþingmaður fyrir Samfylkinguna. Hann færði sig í Framsóknarflokkinn fyrir kosningarnar 2009 og var þingmaður fyrir Norðvesturkjördæmi á síðasta kjörtímabili. Hann sagði sig úr Framsóknarflokknum og var þingmaður utan flokka undir lok þess kjörtímabils, og stofnaði svo ásamt fleirum Bjarta framtíð. Hann varð annar tveggja formanna flokksins og fór á þing fyrir Suðvesturkjördæmi árið 2013.