Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, og oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður, er eini þingmaður Sjálfstæðisflokksins sem ekki hefur gefið það upp hvort hann hyggist sækjast eftir endurkjöri í komandi kosningum.
Framboðsfrestur í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavíkurkjördæmunum rennur út um miðjan dag, eða klukkan 16, á morgun. Allir aðrir núverandi þingmenn í kjördæmunum hafa gefið það út opinberlega hvort þeir hyggjast halda áfram eða ekki. Hanna Birna Kristjánsdóttir, fyrrverandi innanríkisráðherra og oddviti flokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður, gaf það út fyrir nokkru síðan að hún myndi hætta í pólitík nú í haust.
Hinir þingmenn flokksins í Reykjavík, Brynjar Níelsson, Birgir Ármannsson, Guðlaugur Þór Þórðarson og Sigríður Á. Andersen, ætla öll að gefa kost á sér í prófkjörinu. Prófkjörið fer fram 3. september næstkomandi. Guðlaugur Þór tilkynnti í dag að hann sæktist eftir fyrsta sætinu í öðru hvoru Reykjavíkurkjördæminu.
Ekki hefur náðst í Illuga Gunnarsson, en hann er staddur í Ríó á Ólympíuleikunum.