Meirihluti fjárlaganefndar telur að huga eigi að því að fá einkaaðila til að taka þátt í fjármögnun á uppbyggingu flugvallarmannvirkja í Keflavík. Á næstu árum er gert ráð fyrir að framkvæmdir við Keflavíkurflugvöll muni kosta á bilinu 70 til 90 milljarða króna og að flugvöllurinn geti tekið við um 14 milljónum farþega eftir þær ef álag dreifist á sama hátt og það gerist nú. Meirihlutinn telur það „umhugsunarefni að á síðustu sex árum hefur þeim flugvöllum í Evrópu sem eru í blandaðri eigu ríkis og einkaaðila eða alfarið í eigu einkaðila fjölgað hlutfallslega úr 23% í 55%. Nú fara 80% flugfarþega til og frá Evrópu og innan Evrópu um slíka flugvelli. Á sama tíma ætlar íslenska ríkið að fjármagna og taka áhættuna alfarið af þessum stóru framkvæmdum. Meiri hlutinn telur að huga beri að nýjum fjármögnunarleiðum við fyrirhugaða uppbyggingu flugvallarmannvirkja í Keflavík.“
Þetta kemur fram í nefndaráliti meirihluta fjárlaganefndar vegna tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun fyrir árin 2017–2021 sem Kjarninn hefur undir höndum. Undir álitið skrifa þeir þingmenn stjórnarflokkanna sem sitja í fjárlaganefnd. Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, er formaður nefndarinnar og Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, er varaformaður hennar. Nánar verður fjallað um nefndarálitið á Kjarnanum síðar í dag.
Á við tvö hátæknisjúkrahús
Guðlaugur Þór segir við Morgunblaðið í dag að fjárfesting Isavia í stækkun Keflavíkurflugvallar sé mikil og nauðsynleg. Fyrirtækið sé hins vegar í eigu ríkisins, á ábyrgð þess og fjárfestingin ekki áhættulaus. „Þarna erum við að tala um fjárfestingu sem jafngildir nær tveimur hátæknisjúkrahúsum, hvorki meira né minna. Og þetta eru sannarlega mjög mikilvægar framkvæmdir og lúta að einni mikilvægustu burðarstoð íslensks efnahagslífs, ferðaþjónustunni. En þegar þetta mikla fjármagn fer í þessa uppbyggingu þá er ekki hægt að ráðast af sama krafti í aðra mjög mikilvæga uppbyggingu sem er ekki síður nauðsynleg.“
Nýverið var greint frá því í Fréttatímanum að Icelandair sé að kanna af mikilli alvöru að reisa nýjan innanlandsflugvöll í Hvassahrauni með möguleika á millilandaflugi, þar sem ljóst sé að Reykjavíkurflugvelli verði lokað. Fyrirtækið ætlar að hefja tilraunaflug af svæðinu vegna þessa. Hvassahraun var sá staður sem Rögnunefndin svokallaða komst að niðurstöðu um að væri hentugastur fyrir innanlandsflug. Ef af yrði myndi Icelandair reisa flugvöllinn sjálft.
Skúli Mogensen, forstjóri WOW air, hefur hins vegar sagt að hann telji það skelfilega fjárfestingu að byggja nýjan flugvöll skammt frá þeim sem fyrir er. Stækkun Keflavíkurflugvallar væri mun betri leið. Skúli sagði í samtali við Túrista.is að það vel koma til greina að WOW myndi byggja eigin flugstöð við núverandi flugvallarsvæði, en þá myndi vera um einkafjárfestingu að ræða. „Það er alþekkt fyrirkomulag og eitthvað sem við hefðum áhuga á að skoða og ég hef áður nefnt.”