Rekstur sveitarfélaga hefur orðið erfiðari milli ára, ekki síst vegna hækkandi launakostnaðar og minnkandi framlegðar af grunnrekstri. Þetta kemur fram í nýrri greiningu greiningardeildar Arion banka.
Í gær birti hún fimmta árið í röð samantekt sem snýr að afkomu og fjárhagsstöðu sveitarfélaga landsins. Úrtakið nær yfir 27 stærstu sveitarfélögin, sem öll eiga það sameiginlegt að telja 1.500 íbúa eða fleiri, og er samanlagður íbúafjöldi þeirra rúmlega 308.000 eða um 93 prósent landsmanna. Í greiningunni er miðað við A- og B-hluta sveitarfélaganna, þ.e. sveitarsjóð ásamt fyrirtækjum, stofnunum og öðrum rekstrareiningum sveitarfélagsins.
Þó svo að fjárhagsstaða sveitarfélaganna sé mismunandi eins og þau eru mörg þá má almennt segja að reksturinn hafi harðnað á milli ára þrátt fyrir síbatnandi skuldastöðu. Launahækkanir í kjölfar nýrra kjarasamninga hefur reynst sveitarfélögunum erfiður biti að kyngja þar sem útsvarshlutfall er í mörgum tilfellum í lögbundnu hámarki og geta til að auka tekjur takmarkaðar. Þá virðist einnig sem fjárfestingar þeirra þurfi að sitja á hakanum meðan tekist er á við önnur viðfangsefni í rekstrinum.
Samkvæmt greiningunni lækkaði EBITDA (rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagnskostnað) framlegð sveitarfélaganna í fyrsta sinn frá því að við byrjuðum að birta samantektina. „Þessi þróun hélt áfram á síðasta ári og lækkaði EBITDA sem hlutfall af rekstrartekjum um 4,3 prósentustig að vegnu meðaltali (þ.e. að teknu tilliti til stærðar þeirra) og 1,8 prósentustig að hreinu meðaltali. EBITDA framlegð er því komin undir 15% að vegnu meðaltali, eftir að hafa farið hæst í 23% árið 2013, og mælast 19 af 27 sveitarfélögum með framlegð undir 15%. Tekjur jukust nokkuð á nýliðnu rekstrarári og var raunvöxtur tekna að meðaltali 6,3% eða um 4,3 prósentustiga aukning á milli ára. Hins vegar jukust gjöld ívið meira eða um 11,4% að raungildi. Síðastliðin tvö ár hafa því rekstrartekjur aukist um 8,5% að raungildi á meðan að gjöld hafa aukist um 22,7%. Líkt og við tókum fram í markaðspunkti fyrir rúmu ári síðan þá voru sveitarfélögin sett í nokkuð erfiða stöðu í kjölfar kjarasamninga, flest hver með útsvar í botni og með takmarkaða möguleika til að bregðast við þessum kostnaðarþrýstingi, og er það að koma niður á EBITDA framlegðinni,“ segir í greiningu Arion banka.
Heilt yfir skiluðu sveitarfélögin hagnaði á árinu að hreinu meðaltali en þegar horft er til vegins meðaltals var um taprekstur að ræða. Hækkanir á lífeyrisskuldbindingum Reykjavíkurborgar vega þar þungt en um fimm milljarðar af hallarekstur var á árinu. Af þeim 27 sveitarfélögum í okkar úttekt skiluðu 10 tapi á rekstrarárinu samanborið við 4 árið áður. Rétt er þó að hafa í huga að það er vitaskuld ekki markmið sveitarfélaga að hámarka hagnað en hagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) þarf þó að vera nægilega hár svo hægt sé að mæta fjárfestingum og fjármagnskostnaði.
Það vekur „nokkra athygli“, segir í greiningunni, hvað fjárfesting dregst mikið saman á milli ára. „Fyrir tveimur árum veltum því fyrir okkur hvort aukin efnahagsumsvif myndu ekki kynda undir fjárfestingu meðal sveitarfélaganna og sú varð raunin árið 2014 þar sem við sáum meðal fjárfestingu á íbúa vaxa um 20,5% milli ára. Sú þróun snerist hins vegar við á árinu 2015 og stöðvaðist vöxtur fjárfestingar algjörlega þar sem 16 af 27 sveitarfélögum drógu fjárfestingar saman á milli ára,“ segir í greiningunni.
Það má fastlega reikna með því að launahækkanir undanfarinna ára hafi átt sinn þátt í þessari þróun síðastliðið ár, en laun og launatengd gjöld á hvern íbúa jukust að meðaltali um 17,0 prósent á milli ára og hafa aukist um 30,1 prósent á föstu verðlagi síðastliðin tvö ár.