Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra og þingmaður Sjálfstæðisflokksins, ætlar ekki að gefa kost á sér til áframhaldandi þingsetu. Þetta tilkynnti hann á Facebook-síðu sinni fyrir skömmu.
Illugi segist ætla að hætta í stjórnmálum, að minnsta kosti í bili. „Ég mun kveðja stjórnmálin sáttur, en vissulega með nokkrum söknuði. Um leið hlakka ég til að takast á við ný verkefni, hver sem þau kunna að verða.“
Hann segir ákvörðunina tekna eftir vandlega yfirlegu. „Mat mitt er að ég standi nú á þeim tímamótum að annað hvort haldi ég áfram í stjórnmálum og geri þau að ævistarfi, fái ég til þess stuðning kjósenda, eða snúi mér að öðrum verkefnum. Í ljósi þessa hef ég komist að þeirri niðurstöðu að um það bil 16 ára vera á sviði stjórnmálanna sé nægjanleg, a.m.k. að sinni og að skynsamlegast og áhugaverðast fyrir mig sé að leita nýrra áskoranna á öðrum vettvangi.“
Illugi var síðasti sitjandi þingmaðurinn til að kynna áform sín um framhaldið, eins kom fram í frétt Kjarnans í morgun. Framboðsfrestur í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavíkurkjördæmunum tveimur rennur út í dag klukkan 16.
Illugi hefur verið alþingismaður frá árinu 2007, utan þess þegar hann fór í leyfi frá þingstörfum árið 2010 þegar rannsóknarnefnd Alþingis hafði vísað málum peningamarkaðssjóða til athugunar hjá sérstökum saksóknara. Illugi sat í stjórn peningamarkaðssjóðsins Sjóður 9 fyrir hrun. Hann snéri aftur á þing haustið 2011 og varð svo mennta- og menningarmálaráðherra eftir kosningarnar 2013.