Bankaráð Landsbankans hefur ákveðið að höfða mál fyrir dómstólum vegna sölunnar á 31,2 prósent eignarhlut bankans í Borgun hf. á árinu 2014. Það er mat bankaráðs að bankinn hafi farið á mis við fjármuni í viðskiptunum þar sem bankanum voru ekki veittar nauðsynlegar upplýsingar.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landsbankans.
Landsbanki Íslands, sem íslenska ríkið á, sendi frá sér fréttatilkynningu í nóvember 2014 þar sem fram kom að Steinþór Pálsson bankastjóri, hefði undirritað samning um sölu á 31,2 prósent eignarhlut í Borgun. Kaupverðið á hlutnum var tæplega 2,2 milljarðar króna og var kaupandi hlutarins Eignarhaldsfélag Borgunar Slf. þar sem stjórnendur Borgunar voru meðal hluthafa.
Ekkert formlegt söluferli fór fram áður en félagið var selt, en Magnús Magnússon, forsvarsmaður félagsins, var sá sem setti sig í samband við Landsbanka Íslands og sýndi áhuga á kaupum á hlut Landsbankans.
Kaupin fóru því fram bak við luktar dyr, þar sem enginn annar en hópurinn sem sýndi áhuga á kaupunum fékk að reyna að kaupa hlutinn.
Kaupin hafa dregið dilk á eftir sér, og fór Bankasýsla ríkisins, sem fer með hlut ríkisins í Landsbankanum (98 prósent), fram á að bankaráðið myndi víkja sökum þessa, og raunar Steinþór Pálsson forstjóri einnig. Hann er enn forstjóri, en nýtt bankaráð er tekið við stjórnartaumunum. Helga Björk Eiríksdóttir er formaður þess, en Tryggvi Pálsson var í þeirri stöðu þegar salan á hlutnum í Borgun fór fram.
Málshöfðunin byggir á því að Landsbankinn hafi verið hlunnfarinn þar sem ekki voru lagðar fram upplýsingar um mögulegt aukið virði Borgunar, vegna kaupa VISA Inc. á VISA Europe.
Samkvæmt frétt Kjarnans frá því 9. febrúar á þessu ári, reiknaði Borgun með því að fá 33,9 milljónir evra, um 4,8 milljarða króna, í peningum þegar Visa Inc. greiðir fyrir Visa Europe. Auk þess fær Borgun, líkt og aðrir leyfishafar innan Visa Europe, afhent forgangshlutabréf í Visa Inc. að verðmæti 11,6 milljónir evra, eða um 1,7 milljarðar króna. Auk þess mun Visa Inc. greiða leyfishöfum afkomutengda greiðslu árið 2020 sem mun taka mið af afkomu starfsemi Visa í Evrópu á næstu fjórum árum, en hlutdeild Borgunar af þeirri fjárhæð mun ráðast af viðskiptaumsvifum Borgunar sem hlutfall af heildarviðskiptaumsvifum allra seljenda hlutabréfanna á þessum 4 árum.
Því er ljóst að Borgun fengi um 6,5 milljarða króna auk afkomutengdar greiðslu árið 2020 vegna sölu Visa Europe.