Þing kemur saman á nýjan leik á mánudaginn, til þess að ljúka 145. löggjafarþingi áður en boðað verður til kosninga. Kjarninn ákvað af þessu tilefni að taka saman störf þingsins á þessu þingi, sem lýkur væntanlega í september.
64 frumvörp frá ríkisstjórninni hafa þegar orðið að lögum. Tólf mál frá ríkisstjórninni bíða ennþá fyrstu umræðu í þinginu, 18 mál eru í nefnd og tvö hafa verið afgreidd úr nefndum og bíða annarrar umræðu. Ríkisstjórnin hefur boðað það að fleiri mál verði að öllum líkindum lögð fram á þinginu á næstu vikum.
Ólöf með flest frumvörp - Sigmundur fæst
Ólöf Nordal innanríkisráðherra hefur verið duglegust ráðherra við að leggja fram frumvörp, en 27 frumvörp hennar eru komin til þingsins. Bjarni Benediktsson kemur á eftir henni, hefur lagt fram 23 frumvörp. Þau bera höfuð og herðar yfir aðra ráðherra þegar kemur að framlagningu frumvarpa, en Sigrún Magnúsdóttir umhverfis- og auðlindaráðherra hefur komið fram með 12 frumvörp á þessu þingi. Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra hefur átt sjö frumvörp, Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra sex og Sigurður Ingi Jóhannsson lagði líka fram sex frumvörp sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðismálaráðherra hefur komið fram með fimm frumvörp og Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra einnig. Gunnar Bragi Sveinsson lagði fram tvö frumvörp sem utanríkisráðherra og Lilja Alfreðsdóttir eitt frumvarp eftir að hún tók við þeirri stöðu í apríl. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson lagði fram tvö frumvörp sem forsætisráðherra á liðnum vetri. Rétt er að taka fram að utanríkisráðherra leggur iðulega mörg sín mál fram í formi þingsályktunartillagna, og hafa 25 slíkar verið lagðar fram af utanríkisráðherra á þessu þingi.