Mikil ólga er innan Framsóknarflokksins og ríkisstjórnarinnar eftir að Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra tilkynntu að kosið verði til Alþingis 29. október næstkomandi. Gunnar Bragi Sveinsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur gagnrýnt ákvörðunina harðlega og sagði að það hefðu verið mistök að nefna dagsetningu svo fljótt. Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokks og formaður fjárlaganefndar, segir svo í færslu á Facebook í dag að hún telji best að slíta þinginu strax á mánudag og boða til kosninga innan sex vikna.
„Þetta segi ég til að hlífa landsmönnum við bulli, vitleysu og fyrru sem verður annars næstu vikurnar Í hádegisfréttum voru tvö mál komin strax í ágreining - þ.e. búvörusamningar og vegaframkvæmdir - þetta verður óbærilegt,“ skrifar Vigdís.
Segir meirihlutann geta hætt við kosningar
Gunnar Bragi sendi öllum þingmönnum Framsóknarflokksins bréf í gær þar sem hann lýsir megnri óánægju sinni með ákvörðun forsvarsmanna ríkisstjórnarinnar um að nefna kjördag. Hann hafði áður sagt að það væri glapræði að ákveða dagsetninguna áður en þing kæmi saman og málin komin fram. Í bréfinu sagði Gunnar Bragi að ákvörðunin hafði aldrei verið rædd í ríkisstjórn eða meðal þingflokkanna.
Í samtali við Vísi í dag segir Gunnar Bragi svo að ríkisstjórnin hafi það í höndum sér að boða til vetrarþings nái hún ekki að koma mikilvægum málum áfram á þeim vikum sem eftir séu fram að kosningum.
„Ég hef alveg verið skýr með það að kjördag eigi ekki að tilkynna fyrr en það er orðið ljóst að við náum að klára þau mál sem við höfum lagt áherslu á og þau hafa nú verið skorin heldur betur niður þannig að það ætti nú að vera hægt að gera það ef að stjórnarandstaðan leggst ekki gegn því. En ég hefði gert þetta þannig, ég hefði samið við stjórnarandstöðuna um þessi mál áður en kjördagur var ákveðinn,“ segir Gunnar Bragi við Vísi. Hann bætir við að stjórnarmeirihlutinn hafi það svo í hendi sér að kalla „bara kalla saman nýtt þing og hætta við kosningar ef stjórnarandstaðan ætlar að móast við.“
Spurður hvort hann telji að svo verði raunin segist hann ekki hafa hugmynd um það. „Ég er bara að lýsa þessu eins og ég myndi allavega ekki hræðast það að gera slíkt.“