Framsóknarflokkurinn ætlar að kynna frumvarp um verðtryggð húsnæðislán eftir helgi. Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra sagði á Hringbraut í morgun að frumvarpið sé unnið samkvæmt stjórnarsáttmálanum. Hann vildi ekki svara hvort málið væri unnið í fullri samvinnu við Sjálfstæðisflokkinn.
Koma „myndarlega til móts við kaupendur á fyrstu fasteign“
Samkvæmt Sigurði Inga munu 40 ára jafngreiðslulán til húsnæðiskaupa heyra sögunni til verði frumvarpið samþykkt. Hvatar verði settir fram til þess að bjóða upp á óverðtryggð lán og það verði á einhvern hátt samtvinnað við séreignasparnað fólks. Þá verði komið „myndarlega til móts við kaupendur á fyrstu fasteign.“ Spurður hvort um verði að ræða framlag úr ríkissjóði sagði Sigurður Ingi svo ekki vera. Þó verði um að ræða að stórar breytingar á lánaformi sem bjóðast við íbúðarkaup, en breytingarnar eigi þó ekki við um lán sem fyrir eru.
Sigurður Ingi sagði að fyrstu hugmyndir Framsóknarflokksins um afnám verðtryggingar hafi verið samtvinnaðar við skuldaniðurfellinguna, en sérfræðingar höfðu sagt það of flókið. Því verði þessi leið farin, en hann vildi ekki fara nánar út í frumvarpið þar sem það verði kynnt í heild sinni eftir helgi.
Fer ekki fram gegn formanni sem nýtur stuðnings
Varðandi samskipti sín við formann flokksins, Sigmund Davíð Gunnlaugsson, sagði Sigurður Ingi þau vera góð. Hann sagði að vissulega væri óvenjuleg staða uppi, að formaður flokksins sé ekki í ríkisstjórn, en í því gætu samt sem áður falist sóknarfæri í aðdraganda kosninga. Hann fór ekki nánar út í það.
Spurður út í slakt fylgi Framsóknarflokksins í skoðanakönnunum sagði Sigurður Ingi það alltaf vera vonbrigði þegar maður sé að gera eitthvað vel en fái það ekki metið. Hann vildi „njóta ávaxtanna yfir því að hafa búið til svona góða stöðu.“ Fylgið sé óásættanlegt fyrir Framsóknarflokkinn miðað við sögu hans og afrek.
Sigurður Ingi sagðist ekki hafa önnur plön en að leiða lista flokksins í suðurkjördæmi, en varðandi hvort hann bjóði sig fram sem formann sagði Sigurður Ingi að Sigmundur Davíð væri formaður og að hann færi ekki gegn sitjandi formanni sem nyti stuðnings flokksmanna.